Til í slaginn

Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, hefur ákveðið að blása til landsfundar 3.-4. júní, endurnýja forystusveit flokksins og skerpa á stefnumálunum. Samfylkingin mun mæta fersk til leiks að loknum landsfundi. Og það er tilhlökkunarefni fyrir alla þá sem þrá að finna baráttunni fyrir jafnrétti og réttlæti greiðan farveg. Ég vil leiða þá baráttu og vil að velferðarmálin verði þar sett í öndvegi.

Augljóst kosningamál jafnaðarmanna verður gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta enda eru gjöldin sem sjúklingar greiða allt of há og of margir draga það þess vegna að leita sér lækninga. Bygging nýs Landspítala, áætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila, framkvæmd geðheilsustefnu og betri heilsugæsla sem er samstillt félagsþjónustu sveitarfélaga, eru allt aðkallandi velferðarmál. Jafnrétti til náms verður einnig kosningamál samofið raunhæfri byggða-, mennta- og atvinnustefnu. Húsnæðisgreiðslur, barnagreiðslur og lengra fæðingarorlof mætir þörfum ungra barnafjölskyldna. Einfaldari og betri almannatryggingar eru nauðsynlegar.

Spilling
Til að fjármagna velferðina þarf fullt verð fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar að renna í ríkissjóð og allir þurfa að leggja sitt af mörkum. Með Panama-skjölunum komst upp um Íslendinga sem höfðu nýtt sér skattaskjól og sumir þeirra hafa væntanlega talið sér vera þar óhætt, í skjóli fyrir skattinum á Íslandi. Við eigum að nýta það tækifæri sem Panama-skjölin gefa okkur til að uppræta kerfi blekkingar og spillingar sem búið hefur verið til fyrir þá sem vilja komast hjá því að greiða sinn hlut til samfélagsins. Einhverjir eigendur aflandsfélaga fengu háar fjárhæðir afskrifaðar í kjölfar falls bankanna haustið 2008. Dæmi eru um að kröfur í þrotabú bankanna hafi verið vistaðar í aflands­félögum. Háar fjárhæðir hafa komið til landsins í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans og eigendur þess fjár fengið þar verulegan ábata. Upplýsa þarf hvort hér sé í einhverjum tilfellum um sömu aðila að ræða, því slíka spillingu og siðleysi má alls ekki líða.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní