Kraftar jarðar og mannlegur máttur

Kraftar jarðar og mannlegur máttur

„Amma, það er eitthvað rosalegt að gerast við Grindavíkurveginn“ sagði elsta barnabarnið mitt sem var á Reykjanesbrautinni þegar gosið við Sundhnjúkagíga hófst nú á mánudagskvöldið. Hún var sannarlega tilkomumikil 4 kílómetra gossprungan með háum eldtungunum sem sáust vel til allra átta.

Hættumat útilokar ekki að gosopnun verði án fyrirvara í Grindavíkurbæ og Grindvíkingar búa enn við óvissuna. Þó erfitt sé að spá um hvað næstu dagar bera í skauti sér og ýmsir bæði leiknir og lærðir hafi samt á því sterkar skoðanir, þá farnast okkur best þegar við hlustum á okkar færasta fólk. Það er sameiginleg niðurstaða Veðurstofunnar, almannavarna og lögreglu eftir greiningu gagna að enginn eigi að vera í Grindavík við þessar aðstæður. Og alls ekki megi ganga að gosstöðvunum.

Þegar búið er við neyðarástand líkt og Grindvíkingar gera má búast við að því fylgi tilfinningalegt rót. Þetta er í raun ólýsanlegt áfall sem þau ganga þurfa að ganga í gegnum. Við erum öll vanmáttug gagnvart slíkum ógnarkröftum jarðar. Óvissan og óöryggið tekur á og það er mikilvægt að Grindvíkingar hugi að líðan sinni og þeirra sem næst þeim standa. Það þarf einnig að huga að líðan lykilfólks í almannavörnum, björgunarsveit, lögreglu og þeirra sem vakta mikilvæga innviði. Þau þurfa afleysingu og hvíld þegar atburðir dragast á langinn.

Grindvíkingar þurfa aðstoð okkar allra. Mest aðkallandi er að finna húsnæði þar sem þau geta búið sér heimili og komið sem mestu jafnvægi á heimilislíf. Það er ekki síst mikilvægt fyrir börnin. Það er einnig krefjandi því fyrir er húsnæðisvandi í landinu.

Fjárhagsáhyggjum þarf að létta af Grindvíkingum. Bankar og lífeyrissjóðir hafa fryst húsnæðislán og bankarnir fellt niður vexti og verðbætur á sama tíma. Það hafa lífeyrissjóðir hins vegar ekki gert. Það gengur alls ekki að skilja þau 100 heimili eftir sem eru með lífeyrissjóðslán, ef lífeyrissjóðirnir vilja ekki eða telja sig ekki geta farið sömu leið og bankarnir. Það kemur í ljós á nýju ári og þá verður Alþingi að fylgja málinu eftir.

Ég hef hvatt til þverpólitísks samtals um aðgerðir hvort sem þær eru efnahagslegar eða félagslegar, varði vinnumarkaðinn, fyrirtækin eða heimili Grindvíkinga. Verðmætin eru ekki aðeins í hlutum, fasteignum og fyrirtækjum heldur ekki síður í fólkinu sjálfu, listum og menningu ásamt andlegri og líkamlegri heilsu þeirra.

Samhjálp og samstaða með þeim sem á þurfa að halda eru einkenni góðs samfélags.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.