Baráttan fyrir réttlæti

Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, ætti að vera stærsti stjórnmálaflokkurinn hér á landi en mælist samkvæmt könnunum undir 10%. Þetta slæma gengi er alvarlegt mál og verður að breytast svo hugsjónir jafnaðarstefnunar geti orðið að veruleika um jafnrétti og jöfnuð.

Okkar verkefni eru að styrkja stöðu ungs fólks, barnafjölskyldna, aldraðra, fatlaðra og öryrkja. Ójöfnuð sem birtist í óréttlátri skattastefnu og aukinni gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfinu þarf að stöðva strax. Til þess þarf samstillt átak jafnaðarmanna og sterka Samfylkingu.

Ég vil vinna af krafti að því að heilbrigðisþjónusta verði ókeypis, sett verði ný stjórnarskrá, arðurinn af auðlindum skili sér til samfélagsins og tryggja sjálfbærni svo við skilum lífvænlegu umhverfi til komandi kynslóða.

Húsnæðisvandinn
Húsnæðimálin brenna á ungu fólki og vandinn verður ekki leystur nema með aðkomu stjórnvalda. Þar skiptir mestu raunverulegur húsnæðisstuðningur fyrir þá sem minnst hafa. Sá stuðningur sé jafnt við þá sem vilja eiga, leigja eða vera í félagslegu húsnæðiskerfi og auka þarf verulega framboð á góðu húsnæði.

Ég vil einnig að félagsþjónusta og heilsugæsla verði samstillt á vegum sveitarfélaga. Það er bæði betra fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda og fyrir okkar sameiginlegu sjóði.

 

Jöfnuður og réttlæti
Ég er sannfærð um að þegar baráttumálin snúast um jafnrétti og réttlæti er auðvelt að stækka hópinn og fá hugsjónaeldinn til að brenna í hjörtum jafnaðarmanna. Við leggjum áherslu á öflugt atvinnulíf og sanngjörn viðskipti en með velferð í öndvegi.

Baráttan fyrir jöfnum tækifærum allra barna og jafnrétti kynjanna, baráttan gegn misskiptingu auðs og misbeitingu valds og baráttan fyrir bættum kjörum lágtekjufólks er í mínum huga ein og sama baráttan. Barátta jafnaðarmanna fyrir betra samfélagi. Ég býð mig fram til að leiða þá baráttu sem formaður Samfylkingarinnar.

Formannskjör í Samfylkingunni fer fram með rafrænum hætti 28. maí til hádegis 3. júní. Allir sem eru skráðir í Samfylkinguna kl. 12:00 á hádegi 7. maí geta tekið þátt í kosningunni. Skráning í Samfylkinguna og nánari upplýsingar eru á síðunni samfylking.is.

Oddný G. Harðardóttir alþingismaður