Grindavík og samfélagið á Suðurnesjum

Grindavík og samfélagið á Suðurnesjum

Þegar þingið kom saman eftir jólaleyfi hófst þingfundur á umræðum um  málefni Grindavíkur. Ráðherra og þingmenn í öllum flokkum töluðu svo til einum rómi um hvað þyrfti að gera fyrir Grindvíkinga.

Fyrst og fremst þurfi að losa fólkið undan fjárhagsbyrðum og óþarfa áhyggjum og gæta að því að börnin fái fast land undir fætur í bókstaflegri merkingu með öryggi og rútínu skólagöngu og tómstunda.

Þegar þjóð stendur frammi fyrir samfélagsverkefni af þeirri stærðargráðu sem við Íslendingar gerum nú er farsælast að gera það í þverpólitísku samstarfi.

Lausnir sem duga

Það er samdóma álit okkar færasta fólks að það muni enginn búa í Grindavík næstu misserin. Það er áfall en að sumu leyti kostur að engin óvissa sé þar um, því nú geta íbúar Grindavíkur einbeitt sér að lausnum fyrir sig og sína sem eiga að duga næstu misserin og ríki og sveitarfélög unnið með þeim að slíku.

Við þurfum að vinna saman að lausnum fyrir fólkið í Grindavík og síðan fyrir fyrirtækin og rekstur bæjarins.

Það verkefni bíður svo þingheims að glíma við efnahagslegar afleiðingar lausnanna sem leggjast á þær sem fyrir eru. Þá munum við sennilega vilja fara ólíkar leiðir allt eftir pólitískum áherslum. En það þarf að gæta að því að allir leggi sinn sanngjarna hlut að mörkum í þeim eftirleik.

Í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni á dögunum talaði Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdarstjóri útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík, fyrir því að sveitarfélögin á Suðurnesjum sameinuðust í eitt.

Hann lagði til að við Suðurnesjamenn stækkuðum heimavöllinn. Og þá þyrftu Grindvíkingar ekki að flytja í annan bæ heldur bara á milli hverfa í sveitarfélaginu Suðurnes.

Ég tek undir þetta með Pétri. Einhvern veginn virðist þessi lausn blasa við í erfiðri stöðu.

Grindavíkurhverfi

Sveitarstjórnir hinna bæjanna á Suðurnesjum hafa bent á að nægar lóðir séu þar til fyrir íbúðir. Uppbygging einingahúsa að fyrirmynd Eyjabyggða væri upplögð.

Hefð er fyrir náinni samvinnu sveitarfélaganna á Suðurnesjum í gegnum samband sveitarfélaganna. Við eigum saman Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og verkefnin á vegum SSS svo dæmi séu tekin.

Þjónustan er samtengd nú þegar og skrefið til sameiningar er ekki ýkja stórt.

Pétur benti á það augljósa að Grindvíkingar eru ekki að flytja heim í bráð. Þau þurfa að koma sér fyrir annars staðar og skapa eins góðan stöðugleika og mögulegt er um líf sitt. Ef stefnan yrði tekin á sameiningu sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum væri hægt að blása Grindvíkingum von í brjóst og trú á framtíðina. Rekstur Grindavíkurbæjar er augljóslega í uppnámi og ýmis praktísk mál mætti leysa með sameiningu sveitarfélaganna.

Tökum höndum saman

Stjórnvöld leysa fólkið undan fjárhagsáhyggjum sem þá geta farið að búa í haginn fyrir framtíðina. Finna þarf nothæfa lausn fyrir fyrirtækin líka sem þyrftu eftir sameiningu í mesta lagi að flytja sig um hverfi innan bæjar líkt og íbúarnir.

Og jafnvel þó að sameining yrði ekki formleg þá er skynsamlegt að byggja upp hverfi í hinum bæjunum á Suðurnesjum þar sem Grindvíkingar hafa forgang. Efnahagslega er það skynsamlegt en einnig svo samfélagið í Grindavík geti haldið saman og möguleikarnir á að halda utan um þau öll aukast. Sum þeirra vilja og geta kannski flutt heim til Grindavíkur eftir einhvern tíma og þá eiga þau að hafa það val.

Hamfarirnar í Grindavík kalla á að Suðurnesjamenn allir taki höndum saman.

Ráðherrar og þingmenn þvert á flokka eiga einnig að taka höndum saman og leggja fram lausnir sem duga fyrir fólkið, fyrirtækin og samfélagið í Grindavík.

Greinin birtist í Víkurfréttum 31. janúar 2024