Hvað varð um lán SÍ til Kaupþings?

Upplýsingarnar sem greint var frá í gærkvöldi í Kastljósi um mögulegan leka úr Seðlabankanum til starfsmanns Samtaka fjármálafyrirtækja, eru grafalvarlegar og krefjast þess að lekinn og hugsanlegar afleiðingar hans séu rannsakaðar og upplýstar að fullu. Samtal forsætisráðherra og seðlabankastjóra verður að birta.

Ekki er síður alvarlegt að sérstakur saksóknari skuli ekki hafa upplýst Seðlabankann um lekann ef hann átti sér stað, og ástæður þess þarf að skoða. Það verður líka óhjákvæmilegt að rannsaka viðskipti með hlutabréf og lánveitingar komi í ljós að upplýsingum um fyrirhugað lán til Kaupþings hafi verið lekið.

Nú vitum við að Davíð Oddsson, sem seðlabankastjóri, taldi lánveitinguna vera tapað fé. Þá vakna spurningar um hvað varð um féð sem lánað var, og hvað gerðist í bönkunum daginn sem lánveitingin fór fram og afhverju var lánað sama dag og átti að setja neyðarlög? Hverra hagsmuna voru þeir að gæta?

Það hlýtur að vera krafa almennings að vita hvað varð um peningana og að það verði gert strax!

Umfjöllun Kastljóssins má sjá hér