Ávinningur af útboði veiðiheimilda

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu vikur um stjórn fiskveiða hér á landi í kjölfar útboðs Færeyinga á aflaheimildum og sölu kvótans frá Þorlákshöfn. Umræðan er einkum um það réttlætismál að fólkið í landinu fái að njóta arðsins sem eign þess skapar og fái fullt verð fyrir veiðileyfin. Verð sem sett yrði til heilbrigðisstofnana  um allt land og til annarrar uppbyggingar. Við Íslendingar erum rík af auðlindum og teljum það eina af okkar mestu blessun.  Mörg lönd í sömu stöðu glíma við bölvun auðlindanna, spillinguna. Hér á landi birtist hún helst í því að útgerðarmenn ausa fé í stjórnmálamenn og núverandi ríkisstjórnarflokka til að reyna að tryggja  sérhagsmunina og halda úti dagblaði sem talar þeirra máli.

Sjávarbyggðir bera kostnað

Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindarnýtingunni eins og best verður á kosið. Hugmyndafræði sjálfbærar þróunar á einstaklega vel við í útfærslu reglna um nýtingu sjávarauðlindarinnar.  Auðlindanýting er sjálfbær til lengri tíma ef hún leiðir til jafnvægis þriggja þátta; umhverfisáhrifa, efnahagsáhrifa og samfélagsáhrifa. Við höfum nú þegar tekið tvö skref af þessum þremur við stjórn fiskveiða. Kvótakerfið var sett á af umhverfisástæðum, til að vernda nytjastofnana og það var áhrifaríkt skref frá sjónarhóli umhverfisáhrifa.  Það olli hinsvegar misrétti milli kynslóða nýrra og eldri útgerðarmanna og hamlaði nýliðun.  Nokkrum árum síðar var framsal kvóta heimilað af efnahagslegum ástæðum og það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni.  Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðalögunum eins og nýlegt dæmi úr Þorlákshöfn sýnir.  Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn við hagræðinguna en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila.

Réttlæti og sátt

Við höfum náð nokkuð góðum árangri með tvo af þremur þáttum sjálfbærar þróunar í sjávarútvegi, en það höfum við gert á kostnað samfélagslegrar sáttar.  Spurningin sem við stjórnmálamenn verðum að svara er þessi: Hvernig getum við náð öllum þremur hliðum sjálfbærrar þróunar við nýtingu sjávarauðlindarinnar? Samfylkingin hefur lengi talað fyrir útboði veiðiheimilda.  Sú aðgerð ein og sér færir  samfélaginu réttlátari hlut í auðlindaarðinum og gerir nýliðun í greininni mögulegri.  Í dag er staðan þannig að eigandi auðlindarinnar, þjóðin sjálf, fær aðeins um 10% af arðinum en útgerðarmönnum er leyft að ráðstafa 90% hlut. Það hallar verulega á okkur eigendur auðlindarinnar og það mun ekki nást sátt um kerfið á meðan svo er. Við getum tekið strax skref í rétta átt með því að bjóða út viðbótarkvóta sem ákveðinn hefur verið fyrir næsta fiskveiðiár. Fyrir þinginu liggur frumvarp með lagabreytingum sem gerir einmitt þetta mögulegt. Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn eru úr þremur stjórnmálaflokkum.

Hlutur sveitarfélaga

Með því að sveitarfélög fái aukna hlutdeild í ariðunum t.d. í gengum sóknaráætlun landshluta, getum við styrkt stöðu þeirra til uppbyggingar með hugviti heimamanna. Útboð veiðiheimilda tryggir fullt verð fyrir sjávarauðlindina. Með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og staka tillit til byggðasjónarmiða ásamt ríflegri hlutdeild sveitarfélaga í því verði sem útgerðarmenn eru tilbúnir til að bjóða, myndi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu losað sig undan  taprekstri dagblaðsins. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2016