Hvers vegna var kjörtímabilið stytt?

Við leggjum nú af stað inn í síðustu daga þessa kjörtímabils töluvert fyrr en áætlað var. Ástæðan er sú fordæmalausa staða sem upp kom í kjölfar þess að Panamaskjölunum var lekið og í ljós kom að fjöldi Íslendinga, og þar á meðal æðstu embættismenn, höfðu nýtt sér skattaskjól sem notuð eru til að koma peningum undan sameiginlegum sjóðum landsmanna. Það var þjóðinni áfall að forsætisráðherra landsins skyldi vera flæktur í málið, og viðtalið fræga og fréttirnar í kjölfarið voru óbærilega vandræðalegar og þjóðin skammaðist sín fyrir umræður á erlendum fréttastöðum um spillta ráðherra á Íslandi. Fjármálaráðherra og innanríkisráðherra þurftu síðan að útskýra hvers vegna þeirra nöfn voru líka í skjölunum.

Það var tilfinning fólks um svik og spillingu sem kallaði fram fjölmennustu mótmæli í sögu Íslands. Krafan var kosningar strax!

Málamiðlun

Forsætisráðherrann sagði af sér og núverandi forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra báðu þjóðina að sætta sig við að kláruð yrðu ákveðin mál fyrir kosningar en kjörtímabilið yrði stytt um eitt þing. Þegar spurt var um kjördag var svarið: Það fer eftir því hvernig stjórnarandstaðan hagar sér.

Þetta svar er og hefur ekki verið boðlegt og ríkisstjórninni til minnkunar. En þrátt fyrir þessa hótun og þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki fengist til að segja kjósendum hvenær yrði kosið fyrr en nú fimm mánuðum síðar, vann stjórnarandstaðan þétt við þeirra hlið hér á Alþingi síðastliðið vor við að klára mikilvæg mál. Það samstarf gekk vel og er vert að rifja það upp nú þegar við höldum inn í þetta stutta sumarþing.

Ríkisstjórnin rúin trausti

Sannleikurinn er sá að það ríkir megn óánægja með sitjandi ríkisstjórn á fleiri en einu sviði. Heilbrigðisþjónustan líður fyrir fjárskort og það gerir menntakerfið líka. Kjör aldraðra og öryrkja hafa dregist aftur úr lágmarkslaunum. Grunur hefur vaknað um vond vinnubrögð, svo sem í Borgunarmálinu og sala ríkiseigna tortryggð. Farið var í leiðréttingu á húsnæðislánum sem gagnaðist ríkum allra best. Þunginn í ferðamannastraumnum eykst sífellt án þess að gripið sé til neinna aðgerða. Og ríkissjóður hefur orðið að tugum milljarða króna undanfarin þrjú ár vegna lækkaðra veiðigjalda og skatta á þá sem mest eiga. Allt þetta bitnar á venjulegu fólki sem er á lágum eða meðallaunum. Og það er engin þolinmæði lengur fyrir slíkum vinnubrögðum.

Von um betri ríkisstjórn

Það er þó ekki allt kolsvart og staða ríkisfjármála er að mörgu leyti góð, og með réttum áherslum og góðri forgangsröðun verður hægt að byggja upp opinberu þjónustuna og styrkja innviði landsins. Nú er líka góð von um að ný ríkisstjórn taki við stjórnartaumunum eftir kosningar.

Það kemur satt að segja á óvart að sjá kosningaloforð stjórnarflokkanna sem birtast í áætlun þeirra í ríkisfjármálum til næstu fimm ára. Fyrirfram hefði maður búist við digrum loforðapakka með hinum ýmsu uppbyggingarverkefnum, en flokkarnir hafa ákveðið að sýna sitt rétta andlit og gera ekki ráð fyrir meiri peningum inn í heilbrigðiskerfið eða til háskólanna, ekkert meira í vaxta- og barnabætur og nánast ekkert í uppbyggingu vegakerfisins. Og þegar spurt er hvernig skuli þá byggja upp Ísland er svar þeirra einfalt: einkarekstur. Einkarekin sjúkrahús, heilsugæsla, skólar, vegir og flugvöllur.

Ríkisstjórnin mun ekki klára kjörtímabil sitt vegna þess hún er rúin trausti.

Áherslur jafnaðarmanna

Kosið verður að nýju 29. október. Við í Samfylkingunni tölum fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar og nýrri stjórnarskrá. Fyrir öflugu velferðarsamfélagi, réttlátari skiptingu þjóðarkökunnar, jafnrétti til náms, gæða heilbrigðisþjónustu sem allir geta notið og mannsæmandi kjörum á öllum stigum lífsins.

Það er góður möguleiki á að betri ríkisstjórn taki við eftir nokkrar vikur. Og það er afar gleðilegt.

Ræða flutt á Alþingi 17. ágúst 2016