Veiðar og velferð

Við Íslendingar erum ekki sammála um hvernig eigi að skipta arðinum sem auðlindirnar okkar skapa og endalausar deilur eru um málið ár eftir ár. Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið.

Kvótakerfi var sett á af umhverfisástæðum til að vernda nytjastofnana og framsal kvóta var heimilað af efnahagsástæðum. Það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni. Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðarlögunum. Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn af hagræðingunni en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila. Og fólki finnst það óréttlátt og deilurnar halda áfram.

Ef gjöld og skattar eru of há er það almennt talið hafa slæm og bjagandi áhrif á samfélög og efnahagslíf. Það er því viðfangsefni stjórnmálamanna að finna jafnvægi milli skattheimtu og þeirrar velferðarþjónustu og útgjalda sem þeim er ætlað að standa undir. Það er hins vegar ein tegund skatta sem hagfræðingar eru almennt sammála um að hafi ekki slæm eða bjagandi áhrif og það eru auðlindaskattar og auðlindagjöld. Það eigum við að sjálfsögðu að nýta okkur.

Réttlæti og gagnsæi

Gallinn getur verið sá að ef hið opinbera handvelur þá sem fá nýtingarréttinn, þá verða sífelldar deilur um það og einnig um auðlindagjöldin ef við stjórnmálamennirnir ákveðum þau. Þessi vandamál er hægt að leysa hér á landi með útboðum á aflaheimildum. Útboði sem tryggir fullt verð með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og tekur tillit til byggðasjónarmiða. Nýtingarrétturinn ákvarðast með útboðunum og markaðurinn ákvarðar verðið og enginn deilir um það.

Kvótaútboð eru þegar stunduð á Íslandi en þau eru alfarið í höndum einkaaðila. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu verði í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir þurfa að greiða stærri útgerðum 200 krónur fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 13 krónur. Eina breytingin með útboði á aflaheimildum er því sú að þá mun þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, stunda frumútboð á heimildum og njóta arðsins.

Ef við gætum verið viss um að tekjurnar renni til uppbyggingar í sveitarfélögunum vítt og breitt um landið og til heilbrigðisþjónustu sem sárlega vantar fjármagn, mundi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram aðra. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Þessi grein birtist á Eyjunni, 26.08. 2016