Ræða á Alþingi um aðgerðir vegna kórónuveiru

Ræða á Alþingi um aðgerðir vegna kórónuveiru

Herra forseti.

Hugmyndin um að liðka til á landamærunum í sumar var að fá ferðamenn til landsins og halda uppi sóttvörnum um leið.

 Stjórnvöld vissu vel að ekki þyrfti nema ein mistök og einn smitaðan ferðamann til að koma faraldrinum aftur af stað. Og með því yrði okkur aftur ýtt á byrjunarreit, heilsufarslega og efnahagslega með tilheyrandi afleiðingum, ekki síst fyrir þau sem veikast standa.

 Áhættan var tekin og flestir studdu hana og vonuðu það besta. En þetta fór ekki vel þó einhverjar krónur hafi komið í budduna um stund.

 Ég áfellist stjórnvöld ekki fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun heldur hitt, að láta undir höfuð leggjast að meta áhættuna almennilega og hafa ekki unnið áætlanir um hvað gera skyldi ef allt færi á versta veg. Úrræðalaus ríkisstjórn kallar á samráðsvettvang þegar að allt er komið í hnút.

 Nú er heildaratvinnuleysi á landinu 8,8% og spár gera ráð fyrir að það verði orðið 10% um áramót. Langmest er atvinnuleysið á Suðurnesjum eða 16,5 %. Ein af hverjum 5 konum á Suðurnesjum er atvinnulaus. Grafalvarleg staða sem virðist lítið hreyfa við stjórnarflokkunum.

Það er gríðarlegt áfall að missa vinnuna og getur dregið dilk á eftir sér. Gæta þarf alveg sérstaklega að börnum atvinnulausra, skólagöngu þeirra, að þau fái nóg að borða og geti tekið þátt í skipulögðu frístundastarfi sem kostar peninga, verði ekki útundan og hornreka.

Við vitum ekki hvenær faraldurinn gengur yfir en hitt blasir við hverjum þeim sem vill sjá, að þau sem missa vinnuna og fara á atvinnuleysisbætur verða að fá meiri stuðning frá stjórnvöldum.

Hægrimenn segja að ef atvinnuleysisbætur hækki muni atvinnulausum fjölga. Þegar störfum fækkar í þúsundatali í heimsfaraldri og stór atvinnugrein á í miklum vanda án þess að ný atvinnutækifæri komi á móti eru slíkar fullyrðingar augljóslega rangar. Það verða engin ný störf til með því að skapa neyð á heimilum þeirra sem missa vinnu. Fátækt og neyð á heimilum er hins vegar samfélaginu dýr í öllum skilningi.

 Samfylkingin vill dreifa byrðunum. Við viljum ekki að fólk sem missir vinnuna taki allan skellinn. Við viljum byrja á að lengja tekjutengdatímabilið, hækka grunnatvinnuleysisbætur og lengja réttinn til atvinnuleysistrygginga um ár. Við viljum að framlag með hverju barni verði hækkað varanlega og hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní á næsta ári.

 Atvinnumissir er alvarlegra mál í kreppu en í góðæri. Fjöldi fólks missir vinnuna á sama tíma. Störfum fækkar og erfiðara er að finna aðra vinnu og líkur á langtímaatvinnuleysi aukast. Aukaverkanir þess eru skelfilegar fyrir fjölskyldurnar og samfélagið, það er skylda stjórnmálamanna að leita allra leiða til að koma í veg fyrir þær, bæði gagnvart því fólki sem fyrir þessu verður og einnig gagnvart samfélaginu í heild.