Nokkur ráð við kynbundnum launamun

Kynbundinn launamunur hér á landi mælist nú rúmlega 20%. Það er munurinn á raunverulegum tekjum karla og kvenna. Þegar búið er að taka tillit til ýmissa  þátta, s.s. vinnutíma, starfsaldurs og menntunar, þá er launamunurinn um 7%. Sú tala segir okkur þó ekki hvað ratar í veski kvenna miðað við karla og þess vegna er mikilvægara að horfa á mun á heildartekjum. Þar munar ríflega fimmtungi!

Skert kjör frá vöggu til grafar

Kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna. Hann hefur áhrif á öll réttindi kvenna sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur fá t.d. lægri orlofgreiðslur en karlar og lægri lífeyri. Þannig eru konur líklegri til að búa  við fátækt á efri árum. Það er ansi kaldur veruleiki margra kvenna sem nú eru komnar á efri ár að þurfa að horfa fram á að lifa við fátækt síðustu æviárin.

Margar konur vinna í láglaunastörfum og aðrar í hlutastörfum vegna ábyrgðar á börnum og heimili, öldruðum foreldrum eða öðrum ættingjum. Að auki sjáum við iðulega skýr merki þess að konur reki höfuðið í glerþakið og fái ekki sömu tækifæri og framgang á vinnustöðum og karlmenn. Það hefur einnig áhrif á launin.

Vítahringur rofinn

Hvað getum við gert til að eyða kynbundnum launamun og koma í veg fyrir að fátækum gömlum konum fari enn fjölgandi á Íslandi?

  • Stytting vinnuvikunnar mun auka framleiðni og taka um leið tillit til þarfa barnafjölskyldna. Dæmin sanna, m.a. í öðrum norrænum ríkjum, að með hæfilega langri vinnuviku fæst bæði fjölskylduvænna starfsumhverfi og meiri framleiðni. Á Íslandi vinnum við lengri vinnudag en framleiðum minna. Það hlýtur að segja okkur að löng vinnuvika skilar í raun engu. Með því að stilla vinnutíma í hóf þá gætu fleiri konur samræmt atvinnu og fjölskyldulíf. Hlutastörf yrðu þá að miklu leyti úr sögunni og konur fengju full laun fyrir sína vinnu.

 

  • Brjóta þarf glerþakið á vinnumarkaði. Konur eiga að fá jöfn tækifæri og karlar á vinnumarkaði og ekki vera hafnað fyrir það eitt að vera konur. Því fleiri konur sem sitja við stjórnvölinn því eðlilegra verður það að konur séu í ábyrgðarstöðum og því eðlilegra verður það að vinnustaðurinn hugi einnig að þeirra þörfum sem starfsmanna. Með styttingu vinnuvikunnar ættum við a.m.k. að mynda sprungur í glerið. Einnig þarf að þrýsta á stofnanir og fyrirtæki að innleiða jafnlaunastaðalinn. Hann er verkfæri fyrir fyrirtæki til að kanna kynbundinn launamun innan sinna veggja og útrýma honum.

 

  • Lenging fæðingarorlofs í eitt ár og að tryggt sé að leikskólar taki við börnum að fæðingarorlofi loknu fram að grunnskólagöngu er mikilvægt. Það skiptir gríðarlega miklu bæði fyrir börnin og foreldra þeirra. Bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla er mörgum erfitt og börnum er skutlað á milli staða svo foreldrarnir geti stundað sína vinnu. Oftar en ekki bitnar sú staða frekar á starfsframa móðurinnar.

 

  • Greiðslur með ÖLLUM börnum frá hinu opinbera. Tilgangur barnabóta á að vera að jafna stöðu þeirra sem hafa börn á framfæri við þá sem ekki hafa börn á framfæri. Líta þarf svo á að greiðslan fylgi barninu burtséð frá stöðu foreldra. Við þurfum að hætta að kalla þetta barnabætur og fara að tala um barnagreiðslur. Barnagreiðslur auka sjálfstæði kvenna og það dregur síður úr atvinnuþátttöku þeirra ef barnagreiðslurnar ráðast ekki af launum, þ.e. eru ekki tekjutengdar. Við eigum að líta til hinna norrænu ríkjanna og vera þar sambærileg þegar kemur að lífskjörum, ekki síst lífskjörum barnafjölskyldna. Án barna lifa samfélög ekki af.

Oft er fullyrt að jafnrétti kynjanna sé þegar orðið að raunveruleika. Bæði sé það tryggt með lögum og Íslendingar svo meðvitaðir um mikilvægi jafnréttis að ójafnréttið mælist varla. Þetta er kolrangt. Ójafnréttið leynist víða og staða karla og kvenna er sannarlega ekki jöfn á meðan að kynbundinn launamunur mælist.

Við virðumst því miður vera föst í sama farinu ár eftir ár. Það verða ekki breytingar nema að stjórnvöld þrýsti á um þær, líkt og gert var árið 2010 með lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Atriðin sem talin eru upp hér að ofan og stuðla að auknu jafnrétti, eru öll framkvæmanleg. Það þarf bara viljann til að framkvæma þau.

Ég berst fyrir jafnri stöðu karla og kvenna bæði sem þingkona og jafnaðarmaður. Ég veit að við munum öll njóta góðs af  því efkonur standa jafnfætis körlum á öllum sviðum samfélagsins  og fá sanngjörn laun fyrir sína vinnu. Það er hægt að útrýma kynbundnum launamun og þá eigum við að gera það.

Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu þann 13. maí 2016.