Grýttur menntavegur

Menntun verður ekki frá okkur tekin. Hún er verðmæt bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.  Þess vegna er það alvarlegt ef færri fara í nám en þess óska eða ef menntun stæði aðeins þeim efnameiri til boða. Slík staða væri óásættanleg.

Að læra af öðrum

Samkvæmt ársskýrslu LÍN 2014 hefur lánþegum í námi erlendis fækkað um 14% á fimm ára tímabili. Kjör námsmanna versnuðu á sama tíma. Viðbrögð við  fækkun nemenda hefðu átt að vera bætt kjör en ekki ákvarðanir um frekari skerðingu lána. Nú hefur LÍN uppfært framfærslugrunn námsmanna erlendis fyrir skólaárið 2016-2017 og í sumum löndum lækkar hann um 20% á næsta skólaári til viðbótar við 10% lækkun á árinu 2014. Afleiðingarnar verða þær að færri nemendur eiga möguleika á að sækja sér menntun erlendis. Er það stefna hægristjórnarinnar að fækka þeim Íslendingum sem bera hingað heim þekkingu og færni annarra þjóða?

Fullorðnir námsmenn

Ákvörðun um fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum varð til þess að þeir sem eru 25 ára eða eldri sækja síður um skólavist og telja sig ekki lengur velkomna í framhaldsskólana. Öll  þekkjum við fólk sem hefur þurft að hætta námi vegna ýmissa ófyrirsjáanlegra aðstæðna svo sem veikinda eða fjárskorts. Við þekkjum líka öll fólk sem hefur farið aftur í framhaldsskóla í heimahéraði sínu eftir slíkt hlé. Mörg þeirra voru orðin 25 ára og hafa lokið iðnnámi eða stúdentsprófi og háskólaprófi í kjölfarið. Þau starfa um allt land,  í leikskólum, grunnskólum, heilbrigðisstofnunum og tæknigreinum svo dæmi séu tekin. Landsbyggðin hefur treyst á menntun og störf þessara einstaklinga. Það er mikill missir fyrir einstaklingana sem hafa ekki tækifæri til að styrkja stöðu sína með öðrum hætti. Missirinn verður ekki síður mikill fyrir samfélagið í heild þegar litið er til framtíðar. Er það stefna hægristjórnarinnar að fækka faglærðu fólki á landsbyggðinni?

Ríkisstjórnin hefur  lagt stein í götu fólks sem vill afla sér menntunar. En það er stutt til kosninga! Þessu getum við jafnaðarmenn breytt.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar