Vantraust og glötuð tækifæri

Vantraust og glötuð tækifæri

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur nú selt meirihlutaeign ríkisins í Íslandsbanka. Ríkið er því komið í minnihluta og aðrir hluthafar ráða för þegar ákvarðanir eru teknar um stefnu og rekstur bankans, sem svo sannarlega varðar almannaheill. Og það sem meira er – við höfum ekki enn fengið að vita hverjir keyptu hluti í síðasta útboði á sérstökum vildarkjörum.

Hugtakið einkavinavæðing var á allra vörum síðast þegar Sjálfstæðismenn og Framsókn seldu bankana með alþekktum afleiðingum. Nú kemur það hugtak aftur upp í hugann. Þessi leynd er ekki til þess fallin að draga úr vantrausti almennings í garð fjármálafyrirtækja.

Haustið 2012 sat ég í stóli fjármálaráðherra og þá mælti ég fyrir frumvarpi þar sem kveðið var á um það eftir hvaða ferlum skyldi fara ef tekin yrði ákvörðun um að selja hlut ríkisins í bönkunum. Mér fannst ekki nóg að fjármálaráðherra hefði heimild í fjárlögum til að selja hluti heldur þyrfti að tryggja aðkomu Alþingis og umsögn Seðlabankans og síðan þyrfti fjármálaráðherrann að gefa út skýrslu um söluna. Tryggja þyrfti gagnsæi, réttar upplýsingar til almennings og traust. Haustið 2012 áttum við 5% í Íslandsbanka.

Það var svo árið 2015 sem ríkið eignaðist Íslandsbanka að fullu með svokölluðum stöðuleikaframlögum. Þar með hélt ríkið á stærsta hluta bankakerfisins og tækifæri skapaðist til að breyta kerfinu og vinna gegn fákeppni, draga úr áhættusækni og auka ábyrgðarkennd og þjónustu við almenning.

Frá bankahruni hefur ekki farið fram nauðsynleg umræða meðal almennings um það hvernig æskilegt sé að bankakerfið þróist hér á landi og hvað þurfi til að koma til móts við vilja almennings í þeim efnum. Um fjölbreytni, samkeppni, öflugt eftirlit, neytendavernd og örugga ódýra innlenda greiðslumiðlun.  

Nú hefur þetta tækifæri runnið okkur úr greipum. Svo mikið lá á að einkavæða bankanna að nýju. En til að gera bankana söluvænni og gefa nýjum eigendum meiri gróðavon var bankaskatturinn lækkaður þannig að minna færi af arði fjármálafyrirtækjanna í ríkissjóð en meira í vasa nýrra eigenda – sem við fáum ekki að vita hverjir eru.

Hinir útvöldu fengu afslátt frá markaðsverði. Um helmingur þeirra keyptu fyrir minna en 50 milljónir króna. Hverjir eru þetta? Hvernig voru þeir valdir? Eru þetta vinir og kunningjar þeirra sem ráða?  Hafa þeir fjár­­­hags­­­lega burði til að standa á bak við bank­ann ef á móti blæs? Hafa þeir flekklausan feril eins og við hljótum að ætlast til af bankaeigendum? Hvers vegna mátti ekki láta þá bíða og kaupa hluti síðar á markaðsverði?

Almenningur á fortakslausa kröfu á að fá að vita þetta. Hér var nefnilega verið að selja eign almennings.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2022