Um pólitískar ákvarðanir

Um pólitískar ákvarðanir

„Það nennir enginn að tala um pólitík núna. Það er engin stemning fyrir þessum kosningum í september“ segir fólk þegar minnst er á að það sé stutt í kosningar. En allir tala um veiruna og sóttvarnir og ástand heilbrigðiskerfisins. Og það er pólitík!

Það hefur verið okkar gæfa að fylgja ráðleggingum sóttvarnarlæknis í heimsfaraldri. Um ráð hans hefur verið víðtæk sátt í samfélaginu. Það er pólitísk ákvörðun ef ekki er farið að öllu leyti eftir leiðbeiningum sóttvarnarlæknis. Það var pólitísk ákvörðun að bíða í 10 daga með aðgerðir á landamærum þegar ljóst var orðið í sumar að grípa þyrfti til ráðstafana vegna fjölda smita.

Það var pólitísk ákvörðun að svelta heilbrigðiskerfið og það er þess vegna sem það ræður ekki við meira álag en orðið er. Heilbrigðisstarfsfólk sem er að niðurlotum komið er kallað úr sumarfríi, jafnvel fæðingarorlofi og leggur sig fram við að hjúkra sjúklingum. Hleypur um gangana á smitsjúkdómadeild Landspítalans sveitt í sóttvarnarbúningunum á meðan aðgerðum sem hægt er að fresta er frestað. Og biðlistarnir lengjast. Sýnatökur og bólusetningar er einnig viðbótarálag á heilbrigðisstofnanir um land allt sem búa fyrir við mikla manneklu.

Eldra fólk er fast inni á Landspítalanum vegna þess að ekki er pláss á hjúkrunarheimilum fyrir þau. Í stað þess að verja ævikvöldinu á öldrunarstofnun eyða um tvö hundruð manns síðustu mánuðunum ævinnar á lyflækningadeildum Landspítalans, þó að meðferð við veikindum sé löngu lokið. Hvernig gat það gerst að rík þjóð sýni eldra fólki slíkt virðingarleysi?  Ástandið er tilkomið vegna pólitískra ákvarðana um byggingu og rekstur hjúkrunarheimila, um aðstoð á heimilum eldra fólks og valkosti í búsetuúrræðum.

„Þessi ríkisstjórn hefur sett meira í heilbrigðiskerfið en allar aðrar“ segja ráðherrar og stjórnarliðar. Nánast öll viðbótin síðustu fjögur ár fór í byggingu nýja Landspítalans, launahækkanir og verðbætur. Fyrir vikið þróast heilbrigðisþjónustan ekki í takti við fjölgun eða öldrun þjóðarinnar, tæki og tól úreldast og heilbrigðiskerfið veikist ár frá ári. Það þarf sannarlega að byggja við Landspítalann en fjármagnið í byggingu hans fer ekki í rekstur hans á meðan á byggingu stendur. Það hljóta ráðherrarnir að hafa áttað sig á þegar þeir sömdu fjárlögin. Og biðlistarnir lengjast.

Sterkt og gott heilbrigðiskerfi er einn af mikilvægustu hornsteinum velferðarsamfélags. Samfylkingin er með skýra stefnu í heilbrigðismálum og málefnum eldra fólks.

Það þarf kjark, áræði og skýra sýn jafnaðarmanna til að byggja upp og bæta líf fólksins í landinu. Kjósum Samfylkinguna!

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst 2021