Það er komið nóg

Við vitum öll hvað varð tveimur síðustu ríkisstjórnum að falli. Panamaskjölin og Wintrishneykslið sýndu almenningi inn í heim forréttindastéttar þar sem svik og undirferli, skattaundanskot og vafasöm fjármálaumsýsla þykja eðlileg og daglegt brauð. „Það getur verið erfitt að eiga peninga“, sagði maðurinn sem var að reyna að réttlæta ósómann. Hin síðari féll á leyndarhyggju og margítrekuðum tilraunum til yfirhylmingar óþægilegra staðreynda, jafnvel þótt þær upplýsingar væru nauðsynlegar í bataferli barna og fjölskyldna sem orðið höfðu fyrir óbærilegri lífsreynslu. Traust til beggja ríkisstjórnanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks annars vegar og Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hins vegar, var í algeru lágmarki þegar þær þurftu að taka pokann sinn. En var það eingöngu vegna þessara tveggja hneykslismála? Ég held ekki. Traustið var horfið þá þegar vegna langrar slóðar svikinna kosningaloforða.

Við í Samfylkingunni viljum að eftir kosningar verði fyrst ráðist í að leysa þann bráðavanda sem blasir við og gera langtímaáætlanir um betra velferðarsamfélag. Taka á húsnæðisvandanum, efla gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu í opinberum rekstri, bæta kjör þeirra sem verst eru settir, styrkja menntakerfið til að taka við nýjum áskorunum ásamt því að laga vegi, efla lögregluna, gera réttlátar breytingar á skattkerfinu, auka stuðning við ungt fólk og barnafjölskyldur og setja sanngjarna auðlindastefnu. Ljúka heildarendurskoðun á stjórnarskrá, virða þjóðaratkvæðagreiðslur, vinna gegn spillingu og efla traust og gagnsæi.

Þetta er allt hægt og við höfum efni á því.

Í stuttu máli ætti næsta ríkisstjórn að sameinast um góða efnahagsstjórn og öflugra velferðarkerfi. Miklu sterkara opinbert heilbrigðiskerfi, framsækna skóla fyrir alla ásamt mannsæmandi kjörum aldraðra og öryrkja og vinnumarkaði sem tryggir réttindi og jafnrétti.

Það þarf ríkisstjórn sem vinnur raunverulega að almannahag. Þó að hér hafi verið samsteypustjórnir þá hefur í þeim ávallt verið tryggt að sérhagsmunaöflin sem reka stjórnmálaaflið sem kallast Sjálfstæðisflokkur fari sínu fram og ráðskist með innviði samfélagsins að vild. Það er mál að linni.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu