Suðurland og sóknarfærin

Suðurland og sóknarfærin

Uppbygginguna sem verður að eiga sér stað eftir heimsfaraldurinn, þarf að undirbúa strax. Vinna ætti eftir sérstöðu hvers landssvæðis fyrir sig.

Eðlilegt er að horft sé  til matarkistunnar Suðurlands í þeirri uppbyggingu, til landbúnaðar og annarrar  grænnar atvinnustarfsemi. En ferðaþjónustan er annar mikilvægur þáttur og á Suðurlandi þarf að leggja stóraukna áherslu á alla innviði, allt frá vegagerð til heilbrigðisþjónustu og löggæslu sem þurfa að geta borið aukið álag.

Sköpunargleði

Leita þarf líka nýrra lausna. Á Suðurlandi eru mörg dæmi um stór og smá nýsköpunarverkefni sem hafa skapað verðmæti og störf. Bæði í ferðaþjónustu og matvælaiðnaði en einnig á öðrum sviðum.

Margir búa yfir góðum hugmyndum en þurfa hvatningu og stuðning til að komst af stað, þróa hugmyndir og móta og koma í framkvæmanlegt ferli. Löggjafinn á að skapa almennar forsendur til að nýsköpun fái að dafna, bæði lagaumgjörð og fjármagn. En það þarf líka að taka tillit til aðstæðna þar sem fjarlægðir eru talsverðar og kostnaðarsamt að afla aðfanga og koma afurðum  á markað.

Fjárfestingar í grænni nýsköpun hafa aldrei verið jafn mikilvægar og nú á tímum og eru okkur raunar lífsnauðsynlegar þegar við stöndum frammi fyrir loftslagsvá af mannavöldum og hlýnun jarðar.

Það þarf að ýta undir fjölbreytta samsetningu atvinnulífs og verðmætasköpunar svo standa megi undir góðum kaupmætti, háu atvinnustigi og sterku velferðarkerfi. Framsýni og sköpunargleði munu ryðja þar brautina.

Áhuga og færni skortir ekki og þekking býr meðal fólksins á Suðurlandi.

Garðyrkjuskólinn

Matarvenjur okkar eru að breytast með aukinni grænmetisneyslu og færa má fyrir því rök að þær verði að breytast enn frekar. Aukin grænmetisframleiðsla hér á landi mun ekki bara spara gjaldeyri vegna minni innflutnings heldur einnig minnka kolefnisfótsporið. Hvoru tveggja er eftirsóknarvert og nauðsynlegt að gera.

Styrkleikar okkar til aukinnar grænmetisframleiðslu eru miklir í formi endurnýjanlegri raforku og jarðvarma. Við verðum að láta tækniþekkingu vinna með okkur til að auka og auðvelda grænmetisframleiðslu hér á landi.

Vöxtur grænmetisræktunar og græn nýsköpun kalla á öfluga menntastofnun til stuðnings við atvinnugreinina. Þess vegna er Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi svo mikilvægur. Það er grundvallaratriði í framþróun innan greinarinnar að skólinn eflist og styrkist. Gera verður skólanum kleift að styðja með markvissum hætti við garðyrkju og grænmetisframleiðslu og nýsköpun í matvælaiðnaði.

Í október í fyrra kynnti Samfylkingin stefnumörkun sem við köllum Ábyrga leiðin úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Þar eru fjölmargar tillögur um vinnu, velferð og uppbyggingu um allt land. Ein tillagan snýr að Garðyrkjuskólanum að Reykjum og öflugu starfsnámi þar á framhaldsskólastigi ásamt endur- og símenntun í garðyrkju, grænmetisframleiðslu og umhverfismálum. Sú tillaga mun ná fram að ganga komist Samfylkingin í ríkisstjórn eftir kosningarnar í september.

Greinin birtis fyrst í Dagskránni á Suðurlandi 21. apríl 2021

Mynd: Bændablaðið