Stokka þarf upp fjármálakerfið

Það þarf að stokka upp fjármála- og bankakerfið til að það þjóni almenningi en ekki aðallega fjármálaelítunni. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi sem Samfylkingin stóð fyrir á Grand Hóteli sunnudaginn 24. apríl sl.  Ekki síst í ljósi upplýsinganna úr Panamaskjölunum svokölluðu er þetta verkefni enn brýnna en áður, eða kannski frekar augljósara öllum.

Ræðumenn og gestir Samfylkingarinnar voru John Kay, einn þekktasti hagfræðingur Breta, prófessor við London School of Economics og fastur dálkahöfundur stórblaðsins The Financial Times. „Hann hefur skrifað margar bækur um þróun fjármálakerfinsins og sú nýjasta, sem nefnist „Other peoples money“ hefur vakið mikla athygli. Í henni teiknar hann upp hvernig fjármálakerfið myndi líta út ef hlutverk þess væri að þjóna atvinnulífinu og samfélaginu í stað þess að þjóna einkahagsmunum toppanna í bönkunum“ segir í kynningu á honum á síðu flokksins.

Sergei Stanishev, leiðtogi evrópska jafnaðarmanna (PES) og fyrrverandi forsætisráðherra Búlgaríu, flutti ræðu sem hann kallaði „Skattaskjól eru birtingarmynd glæpsamlegrar hegðunar hinna ríku“.

Húsfyllir var á fundinum og tíðindamaður síðunnar ræddi við Oddnýju Harðardóttur að loknum fundinum.