Seðlabankinn

Seðlabankinn

Seðlabanki Íslands er ein mikilvægasta stofnun landsins. Það skiptir miklu að bankinn sé traustsins verður og standi undir því mikilvæga hlutverki sem honum er falið.

Seðlabankinn er gríðarlega valdamikil sjálfstæð stofnun þar sem reglur um fjármálamarkaði eru settar, eftirlit haft með hegðun fyrirtækja á markaði og rekstri fjármálastofnana. Sama stofnun fer með peningastefnuna, ákveður vexti og bindiskyldu og getur haft áhrif á gengi krónunnar með kaupum og sölu á gjaldeyri. Ekki er ólíklegt að stjórnmálamenn vilji hafa áhrif á starfsemi svo valdamikillar stofnunar. Það er því grundvallaratrið að sjálfstæðið sé tryggt gagnvart ríkisstjórn hverju sinni.

Með lögum um Seðlabankann frá 2019 var ákveðið að bæta við tveimur varabankastjórum í Seðlabankann. Þeir urðu þá þrír samtals. Á sama tíma var tillaga minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar samþykkt um að forsætisráðherra skuli fela þremur óháðum sérfræðingum að gera úttekt á því hvernig Seðlabanka Íslands hafi tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits ásamt skipulagi, verkaskiptingu og valdsviði innan bankans.

Og fyrsta úttektin er komin. Í henni er fjallað um  samþjöppun valds innan bankans til seðlabankastjórans og m.a. tiltekið að allir deildarstjórar ásamt varabankastjórunum heyri beint undir seðlabankastjóra. Skýrsluhöfundar taka fram að þeir hafi ekki í öðrum seðlabönkum sem fella eftirlit inn í starfsemi sína, kynnst fyrirkomulagi stjórnunar sem víkur í jafn ríkum mæli frá stjórnunarháttum og mæla með hefðbundnara stjórnunarfyrirkomulagi.

Einnig er á það bent að meðlimir peningastefnunefndar verði að gera greinarmun á eigin skoðunum og ákvörðunum nefnda þegar ákvarðanir eru kynntar. Formaður peningastefnunefndar er seðlabankastjóri.

Í þessu ljósi er ekki óeðlilegt að spyrja hvort það hafi verið ákvörðun peningastefnunefndar að Ísland væri orðið lágvaxtaland þegar seðlabankastjóri tilkynnti það sumarið 2020? Seðlabankastjórinn boðaði nýja tíma og sagði að í fyrsta sinn væri það raun­veru­legur val­kostur fyrir heim­ilin að skipta yfir í nafn­vexti. „Þetta eru mikil tíma­mót og fela í sér að verð­trygg­ingin mun deyja út.“ Fólkið sem trúði seðlabankastjóranum glímir nú við stóraukna greiðslubyrgði vegna húsnæðislána og mun fleiri heimili hafa lent í vanda. En fjármálastofnanir græða.

Og var það ákvörðun peningastefnunefndar í október að vextir yrðu ekki hækkaðir frekar? Vaxtahækkanir síðan þá leiddu í ljós hið gagnstæða.

Hverju sem öðru líður þarf Alþingi að sjá til þess að lög séu skýr um Seðlabankann og með þeim sé hagur almennings varinn. Og ákvarðanir nefndanna verða að vera vandaðar og kynningar á þeim einnig. Orð seðlabankastjóra vega þungt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. febrúar 2023