Sáttmáli okkar við börnin

Liðin eru sex ár síðan Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur hér á landi en stjórnvöld hafa ekki enn staðist þau viðmið sem Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sett fyrir innleiðingu hans. Þau viðmið kalla á heildstæða áætlun um málefni barna. Slíka áætlun hafa stjórnvöld trassað að vinna.

Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar er að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna hér á landi. Þessar aðgerðir byggjast á rétti barna eins og hann er skilgreindur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Við viljum bæta líf og líðan allra barna en við gefum líka viðkvæmum hópum sérstakan gaum. Tillögurnar eru mjög yfirgripsmiklar og settar fram í sjö köflum og 49 liðum. Þetta eru aðgerðir til að bæta afkomu barnafjölskyldna,  styðja við uppeldi og efla forvarnir. Þær eru í þágu barna og ungmenna með þroskafrávik og geðraskanir, langveikra barna, innflytjenda, barna og ungmenna sem glíma við vímuefnavanda eða hegðunarvanda og til að vernda börn gegn heimilisofbeldi, kynferðisbrotum og vanrækslu.

Við viljum að fundnar verði leiðir til að samræma vinnu, fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur með styttri og sveigjanlegri vinnutíma. Við viljum tryggja að foreldrar geti sinnt veikum eða fötluðum börnum sínum. Við viljum lengja fæðingarorlof í tólf mánuði og bæta afkomu barnafjölskyldna með því að hækka barnabætur og að fleiri fjölskyldur fái barnabætur en nú er. Við leggjum til stuðning við nemendur í framhaldsskólum til kaupa á námsgögnum, niðurgreiddan hádegismat í skólum og bætt aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra sem búa við veikan fjárhag. Umgengnisforeldrum verði tryggður stuðningur til framfærslu og umgengni við börn sín. 

Við viljum vernda börn fyrir ofbeldi með virkri teymisvinnu barnaverndarnefnda, lögreglu og heilsugæslu um allt land um hvers konar ofbeldi gegn börnum. Einnig er í tillögum okkar gert ráð fyrir því að miðlægu landsvöktunarkerfi verði komið á þannig að tryggt sé að gripið verði strax til aðgerða ef grunur vaknar um að barn verði fyrir ofbeldi. Þannig verði upplýsingum safnað á sama stað frá heilsugæslustöðvum, skólum og lögreglu og komið í veg fyrir að flakkað sé með börn á milli sveitarfélaga til að komast hjá aðgerðum þeim til verndar.

Við viljum efla forvarnarstarf gegn kynferðisofbeldi, þar á meðal barnaklámi, og að löggæsla á netinu verði gerð skilvirk svo fá dæmi séu hér tekin úr tillögunni.

Tillagan er um að við stöndum um sáttmála við íslensk börn. Ég mælti fyrir henni í september og nú er hún til vinnslu í velferðarnefnd Alþingis. Hvort hún kemst þaðan út verður tíminn að leiða í ljós.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2019.

ES: Samþykkt var að vísa þingsályktunartillögunni til ríkisstjórnarinnar í maí 2019.

ES: