Samherjaskjölin og samþjöppun

Samherjaskjölin og samþjöppun

Það var þann 12. nóvember 2019 að rannsóknarblaðamennska Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks var opinberuð um starfsemi Samherja í Namibíu. Umfjöllunin var ítarleg og studd með gögnum um mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti. Og okkur brá.

Með umfjölluninni var dregin upp dökk mynd af starfsemi Samherja, eins stærsta fyrirtækis á Íslandi. Fyrirtækis sem hafði hagnast um meira en 100 milljarða á innan við áratug og teygt arma sína inn í fjölmarga aðra geira en fiskvinnslu á Íslandi.

Viku síðar, þann 19. nóvember, hélt ríkisstjórnin fund og setti niður aðgerðir til að efla traust á íslensku atvinnulífi. Í því plaggi kom m.a. fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra myndi hafa frumkvæði að því að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna ynni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndum. Á grundvelli úttektarinnar ynni stofnunin tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti.

Heilbrigðir viðskiptahættir

Síðan þessi ríkisstjórnarfundur var haldinn eru liðnir næstum því fimm hundruð dagar. Samningar við stofnunina hafi dregist vegna Covid-19 og gagnasöfnun stendur yfir en ekki er búið að semja um úrvinnslu og tillögugerð um aðgerðir gegn spillingu, mútum og peningaþvætti. Við vitum ekki hvenær eitthvað kemur frá stofnuninni.

Á meðan beðið er eftir tillögum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna virðist fátt vera gert innan sjávarútvegsráðuneytisins sem ætlað er að vinna gegn spillingarhættunni sem fólgin er í því að útgerðarmenn fái aðgang að stórum hluta fiskveiðiauðlindarinnar og öðlist með honum völd í samfélaginu og mikla fjármuni.

Samþjöppun

Í plagginu frá ríkisstjórninni, sem var birt fyrir næstum 500 dögum, er talað um að ráðast þurfi í endurskoðun laga um stjórn fiskveiða svo reglur um hámarksaflahlutdeild séu skýrar.

Eins og lögin hafa verið túlkuð þá má einn aðili ráða yfir 12% kvótans og því til viðbótar eiga 49% hlut í öllum hinum fyrirtækjunum sem ráða yfir þeim 88% sem út af standa.

Í stað þess að einn aðili þurfi að eiga meirihluta í öðrum til að teljast tengdur aðili, ætti að miða við 25% líkt og viðmiðið er í lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Upplýsingar um raunverulega eigendur eru aðgengilegar almenningi. Auk þess að vinna gegn samþjöppun mun þessi breyting auðvelda til muna eftirlit Fiskistofu með tengdum aðilum og mat á því hvort 12% hámarkinu sé náð. Og jafnvel þó að meirihlutaviðmiðið sé almennt viðmið, þá er hér um að ræða sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar sem sérstöku máli gegnir um.

Ítrekað hefur verið bent á að of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni þýddu meiri völd til þeirra í þjóðfélaginu en heilbrigt gæti talist og staða þeirra sé of sterk gagnvart stjórnvöldum. Völd þeirra og áhrif í þjóðfélaginu geti verið skaðleg, að áhrif þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu og á vettvangi stjórnmála geti unnið gegn almannahag.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2021