Sala Mílu varðar öryggi þjóðarinnar

Sala Mílu varðar öryggi þjóðarinnar

Síminn ætlar að selja Mílu ehf. Og hvað með það? Er ekki alltaf verið að selja fyrirtæki? Jú – en Míla er ekkert venjulegt fyrirtæki sem engu máli skiptir hverjir eiga eða hvernig er rekið. Rekstur fyrirtækisins varðar íslenskan almenning og öryggi þjóðarinnar.

Míla á stærsta hlutinn í stofnljósleiðara landsins á móti NATO og það er Míla sem sér um rekstur og viðhald allra þráðanna í strengnum. Ljósleiðarastrengirnir eru undirstaða flestra fjarskiptakerfa sem notuð eru á Íslandi, þar á meðal símkerfis, farsímakerfis, Tetraneyðarfjarskiptakerfis, mikilvægra gagnatenginga fyrir helstu stoðkerfi landsins og almennrar internettengingar landsmanna.

Nánast öll tal- og gagnafjarskipti við útlönd fara um ljósleiðaratengingar á landi og síðan um þrjá sæstrengi sem tengja Ísland við umheiminn. Sambandsrof getur gert Ísland að mestu sambandslaust við umheiminn og haft alvarlegar afleiðingar á efnahags-, öryggis-, varnar- og almannahagsmuni.

Fjárfestingafgélagið Ardian France SA ætlar að kaupa Mílu. Okkur er sagt að stjórnendur félagsins séu viðkunnalegir en það er ekki nóg. Við þurfum að gera ríkar kröfur til félags sem er með eignarhald á svo mikilvægum innviðum. Míla má ekki fara í hendur fjárfestingasjóðsins án skilyrða um samfélagsöryggi sem halda. Ef illa fer verður almenningur fyrir skaða.

Neyðarhemill

Í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri segir í 12. grein að ef erlend fjárfesting ógnar öryggi landsins geti ráðherra stöðvað slíka fjárfestingu enda kynni ráðherra ákvörðun sína innan átta vikna frá því að samningur er gerður. Samningurinn var gerður 23. október síðast liðinn. Ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur því tíma til 17. desember til að stöðva sölu Símans á Mílu ef stjórnvöld telja að salan geti leitt til þess að þjóðaröryggi sé ógnað.

Alls ekki má ganga frá sölunni nema Alþingi Íslendinga hafa rýnt skilyrðin vel og telji víst að þjóðaröryggis sé gætt. Alþingi hefur ekki komið saman í marga mánuði og þegar þessi pistill er skrifaður vitum við ekki enn hvenær þing kemur saman. Ríkisstjórnin fráfarandi getur ekki leyft sér að hunsa Alþingi í svo mikilvægu máli. Ef í það stefnir verður forsetinn að skipa starfsstjórn og kalla þingið saman.

Við snúum víst ekki tímanum við til að leiðrétta þau mistök sem gerð voru með sölu Símans. En við getum sett lög og regluverk sem tryggir viðhald, öryggi og heimild yfirvalda til að taka fyrirtækið yfir ef neyðarástand skapast eða einkaaðilinn er ekki hæfur til að sinna svo mikilvægri starfsemi. Það verður að koma i veg fyrir að eigendur geti af geðþótta eða vegna vanhæfni lamað íslenskt samfélag, farið með fyrirtækið út fyrir lögsögu Íslands eða selt úr landi nauðsynleg tæki til starfseminnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2021