Réttlát græn umskipti

Ef fólk þarf að taka á sig óhóflegar byrðar í baráttunni við loftslagsbreytingar og sumir meiri en aðrir, mun það leiða til andstöðu við nauðsynlegar aðgerðir. Og það verður til þess að við náum ekki árangri í að vinna gegn þeirri ógn sem loftlagsvá af mannavöldum er.

Í haust lagði Samfylkingin til aðgerðaráætlun til þess að fjölga störfum, örva eftirspurn og styðja við loftslagsvæna verðmætasköpun á Íslandi. Tillagan var lögð fram með tilliti til alþjóðlegra loftslagsskuldbindinga Íslands á tímum hamfarahlýnunar og í ljósi efnahagssamdráttar, sögulegs fjöldaatvinnuleysis og framleiðsluslaka vegna kórónuveirufaraldursins. Tillögunni var vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu með samþykkt Alþingis við þinglok 12. maí.

Með grænu atvinnubyltingunni lögðum við meðal annars til að stofnaður verði grænn fjárfestingasjóður með fimm milljarða í stofnfé, sem styðji við loftslagsvæna atvinnuuppbyggingu og grænan hátækniiðnað. Orkuskiptum verði hraðað, ráðist verði í kraftmikið skógræktarátak, stuðning við grænmetisframleiðslu, skipulega uppbyggingu iðngarða og stóreflingu almenningssamgangna um allt land. Með þessu er hægt að slá tvær flugur í einu höggi - örva eftirspurn og atvinnu en um leið skapa grænna samfélag á Íslandi og auðvelda okkur að ná metnaðarfyllri loftslagsmarkmiðum á næstu árum.

Samvinna innanlands og yfir landamæri

Líffræðilegur fjölbreytileiki hafsins skiptir okkur hér á Íslandi miklu máli og verði þróunin þar ekki stöðvuð mun hún hafa slæm áhrif á fiskimiðin okkar og stórkostleg neikvæð efnahagsleg áhrif um leið.

Réttlát umskipti í átt að kolefnishlutalausri framtíð er eitt brýnasta umhverfis-, samfélags- og efnahagsmál samtímans. En það kallar á samvinnu þvert á flokka og á milli landa. Samræma þarf aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og tryggja mannsæmandi störf og lífskjör.

Við jafnaðarmenn viljum leggja okkar að mörkum þannig að grænu umskiptin verði sanngjörn og að allir fái að vera með. Á endanum verða allir að leggja sitt að mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Við  verðum að tryggja að kostnaðurinn lendi ekki þyngst á þeim sem minnst hafa milli handanna. Raunar gætu grænu umskiptin leitt af sér sanngjarnari skiptingu gæða en við þekkjum í dag.

Jöfnuður og hagsæld

Við í Samfylkingunni ætlum að taka forystu og leiða grænu umskiptin í samvinnu við atvinnurekendur, vinnandi fólk og samfélagið allt.

Tæknibyltingin opnar á fjölmörg tækifæri. Sama gildir um tæknibyltinguna og græn umskipti að það þarf að koma í veg fyrir að þróunin auki ójöfnuð. Hún þarf þvert á móti að auka jöfnuð. Við jafnaðarmenn óttumst ekki nýja tækni. En við óttumst hinsvegar að hið gamla og úrelta fái að ráða.

Græn umbylting á vinnumarkaðnum er hafin en spurningin er hvernig við látum þessa umbyltingu gerast á réttlátan hátt. Hvernig forðumst við atvinnuleysi og að þau sem hafa minnst á milli handanna nú þegar verði illa úti?

Markaðurinn einn mun aldrei leysa þetta stóra vandamál sem við stöndum frammi fyrir vegna hlýnunar jarðar. Það þarf pólitíska forystu og sameiginlegt átak verkalýðshreyfinganna og stjórnvalda til að tryggja réttlát græn umskipti.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 24. júní 2021