Ölmusa eða sjálfsögð þjónusta

Á árunum 2013 til 2019 fjölgaði Suðurnesjamönnum úr 21.560 íbúum í 27.730 eða um 6.524 íbúa. Þetta er 30% fjölgun en á sama tíma var meðalfjölgun á landinu öllu 12%. Áætlanir stjórnvalda miða jafnan við að íbúum fjölgi að meðaltali um 1% á ári. Fjölgun íbúa á Suðurnesjum á milli áranna 2017 og 2018 var 7,4%.

Á Suðurnesjum búa hlutfallslega fleiri á aldrinum 21-45 ára en annars staðar á landinu og börn undir 5 ára aldri eru þar líka hlutfallslega fleiri. Hlutfall erlendra íbúa er um 23% en er til samanburðar 12,5% á höfuðborgarsvæðinu og 13,7% á landsbyggðunum.

Lýðheilsuvísar Landlæknis sýna að hvergi á landinu er eins mikil þörf fyrir bætta heilbrigðisþjónustu en á Suðurnesjum.

Þetta eru tölulegar upplýsingar frá því í október í fyrra. Þær lágu allar fyrir þegar fjárlagafrumvarpið var samþykkt. Þetta eru staðreyndir.

Nú heldur þú kannski lesandi góður að tekið hafi verið tillit til þessara þátta við ákvörðun fjárveitinga með fjárlögum. Að stjórnvöld hafi ekki aðeins horft á meðaltöl fyrir landið allt heldur metið aðstæður fyrir hvert landsvæði fyrir sig og mætt þörfum íbúa. En nei - svo er aldeilis ekki.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) fær lægsta framlag á íbúa til heilsugæslu í fjárlögum 2020. Og það gerðist líka í eldri fjárlögum og þar skera í augun árin 2017-2019 þegar mesta fjölgunin varð. Álag hefur einnig aukist vegna fjölda farþega sem fer um flugstöð Leifs Eiríkssonar og þarfnast sumir þjónustu HSS.

Mikil fjölgun íbúa og mikil fjölgun ferðamanna um Leifstöð hefur ekki heldur orðið til þess að framlög til löggæslu aukist að sama skapi heldur þvert á móti hlutfallslega minna en á öðrum svæðum með minni umsvif. Framlög til almennrar löggæslu halda ekki í við íbúaþróun sem kemur niður á þjónustu lögreglunnar við íbúa.

Umferð um Reykjanesbrautina hefur nærri tvöfaldast á síðustu sex árum. Samt er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum svo heitið geti fyrr en á árunum 2025-2029. Og viðhaldi er ábótavant.

Á dögunum skoraði stjórn Almannavarna á sveitarfélög og þingmenn svæðisins að krefjast þess strax að rekstrargrundvöllur HSS verði styrktur verulega og að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar alla leið að flugstöð. Svo alvarleg er staðan orðin.

Í Reykjanesbæ búa um 19.000 manns. Atvinnuleysi þar er nú rétt um 10% og fer vaxandi. Atvinnuleysi á landinu öllu er 3,6%. Þörfin fyrir fjölbreytt námsframboð og gott aðgengi að símenntun er knýjandi.

Oft finnst Suðurnesjamönnum að stjórnvöld komi fram við þá eins og betlara sem biðja um ölmusu þegar þeir kalla eftir sjálfsagðri velferðarþjónustu.

Í lok mars mun fjármálaráðherra mæla fyrir nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Geta ekki allir sem lesa þennan pistil, líka Framsóknarmenn, Vg og Sjálfstæðismenn, verið sammála um að mæta þurfi stöðu Suðurnesja með afgerandi hætti í þeirri áætlun?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2020

ES: Vegna COVID-19 var framlagningu fjármálaáætlunar frestað til 1. október 2020