Óábyrg efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins

Formaður Sjálfstæðisflokksins skilur ekki enn hvernig hann skildi eftir lág- og millitekjufólk – 80 prósent landsmanna! – en lækkaði skatta á efnaðasta fólk landsins. Það er svo merkileg þessi mýta um að hægrimenn stjórni betur en aðrir eða hafi meira vit á peningum, því hún stenst enga skoðun. Indriði Þorláksson, fyrrum ríkisskattstjóri, afgreiddi fjármálaráðherrann snyrtilega og benti honum á að aukin skattbyrði komi vissulega til vegna hærri tekna hjá meirihluta launafólks, en það ekki raunin hjá þessum ríkustu 20 prósentum. Þeirra skattur hefur lækkað á sama tíma að tekjur þeirra hafa hækkað meira en annarra.

Jafnvel þótt allt annað í kosningabaráttunni hafi farið framhjá kjósendum, er hér komin ein mikilvæg ástæða til að skipta um stjórn. Því þessi stjórn vinnur eingöngu samkvæmt löngu úreltum kenningum um brauðmola til almúgans og mikilvægi þess að sumir lifi í lúxus en aðrir dragi fram lífið. Þeir hafa rangt fyrir sér.

Svona á að gera þetta

Ef bæta á stöðu almennings, en ekki bara þeirra ríkustu, verður að beina sköttunum í rétta átt. Það jafnvægi bjó Samfylkingin til fyrir nokkrum árum, með þrepaskiptum tekjuskatti. Þeir hafa lægstu tekjurnar greiða minnst í skatt, en þeir sem eru í mestu færum borga mest. Það er réttlátt, og á því byggja þau samfélög sem helst er horft til í heiminum og jafnaðarmenn hafa byggt upp.

Útboð á kvóta er ekki sérstakt áhugamál Samfylkingarinnar, heldur réttlætismál fyrir okkur öll. Að afnema undanþágur ferðamanna frá greiðslu virðisaukaskatts er leið til að fjármagna grunnþjónustu. Þannig öflum við peninga til að standa undir öflugri gjaldfrjálsri þjónustu við sjúklinga og nemendur og verðum í færi til að styðja við barnafjölskyldur, aldraða, öryrkja og þeirra sem eru fastir á fokdýrum leigumarkaði.

Góður jarðvegur fyrir einkaframtak

Vissulega verður að búa fyrirtækjum landsins góðan jarðveg með hagstæðum sköttum og gjöldum, en það er best gert með lækkun tryggingagjalds. Það lækkaði ekki nema um hálft prósent seint á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir loforð um annað. Skattalækkunum hægrimanna  er venjulega beint í kolrangar áttir og annað dæmi um það er ferðaiðnaðurinn, sem er orðin okkar stærsta og öflugasta atvinnugrein. Eitt sinn átti það við að styrkja þá grein beint, en nú hjálpum við henni ekki með skattalækkunum. Besti stuðningurinn við móttöku ferðamanna er með uppbyggingu innviða, betri vegum, betri aðstöðu, verndun náttúrunnar og eflingu heilsugæslu og löggæslu.

Líka til heimbrúks

Sagan sýnir að vinstrimenn eru sérstaklega færir í efnahagsstjórn því við hugsum um almannahag. Utanríkisráðherra sækir nú heim háskóla og virtar stofnanir erlendis og útskýrir hversu vel við stjórnuðum í efnahagshruninu. Hún mætti gjarnan brúka þann fyrirlestur hér heima líka, kjósendum til upplýsingar.

Skattabreytingar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafa snúist um að raska því jafnvægi sem við sköpuðum milli skattgreiðenda og nú greiða ríkustu 20% þjóðarinnar hlutfallslega lægri skatta en aðrir. Það er óréttlátt og því eigum við breyta. Það er helsta ógn við stöðugleika á Íslandi og ástæða þess að ASÍ styrkir nú verkfallssjóði sína.

Greinin birtist á Eyjunni, 25.10. 2016