Norðurlöndin eru hið lýðræðislega ljós á myrkum tímum

Norðurlöndin eru hið lýðræðislega ljós á myrkum tímum

Í dag 23. mars 2022, höldum við upp á dag Norðurlanda – dag norræns samstarfs og vinarhugs – í skugga hins hrottalega stríðs Pútíns í Úkraínu. Þrátt fyrir að tímarnir séu myrkir núna er Norðurlandaráð áminning um að það eru bjartari tímar framundan.

Þann 23. mars 1962 undirrituðu Ísland, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk Helsingforssamninginn – sem er eins konar stjórnarskrá fyrir Norðurlöndin. 10 árum fyrr höfðu fyrstu skrefin þá þegar verið tekin í átt að því sem við þekkjum í dag sem Norðurlandaráð - opinber samstarfsstofnun norrænu þinganna.

Saga Norðurlandaráðs hefst þegar seinni heimsstyrjöldinni lýkur. Uppbyggingin eftir stríð fór hratt af stað og á sama tíma og Sameinuðu þjóðirnar urðu til árið 1945 kom einnig upp sú hugmynd að Norðurlöndin kæmu saman til að mynda þannig stærri og sterkari rödd. Að frumkvæði danska jafnaðarmannsins Hans Hedtoft var Norðurlandaráð stofnað árið 1952 sem varanleg stofnun þar sem norrænir þingmenn gátu hist reglulega og rætt sameiginleg norræn málefni.

Á Norðurlöndunum höfum við margt til að vera stolt af

Nú eru 70 ár liðin síðan Norðurlandaráð var stofnað. Fjarlægðin milli landa okkar er lítil og það er margt sem sameinar okkur. Eftir langa sögu af stríðum eru Norðurlöndin í dag merkisberi friðar, stöðugleika og lýðræðis. Norrænt samstarf, sem borið er á herðum samfélaga sem byggð eru á hugsjónum jafnaðarstefnunnar, hefur í sjö áratugi sýnt styrk sinn og skapað betri lífsgæði fyrir íbúa Norðurlanda, menningarlega, efnahagslega og félagslega.

Norðurlöndin eru einnig þekkt langt út fyrir eigin landamæri. Norræna velferðarkerfið hefur vakið heimsathygli og er gjarnan horft til þess af mikilli aðdáun hvernig Norðurlöndin tókust á við heimsfaraldurinn. The Economist hefur til að mynda lýst því yfir að Norðurlöndin hafi staðið sig best í gegnum COVID-19 heimsfaraldurinn.

Í dag stendur Evrópa – og í raun allur heimurinn – frammi fyrir nýrri öryggisáskorun. Hrottaleg árás Pútíns á Úkraínu boðar nýtt tímabil í Evrópu. Stríðið er ekki bara árás á Úkraínu, það er árás á lýðræði, frið og frelsi – og varðar okkur öll.

Um allan heim verðum við nú, hvert og eitt, að taka afstöðu.  Viljum við taka þátt í baráttu fyrir lýðræði, friði og frelsi eða styðja við einræðisöfl myrkursins?

Svar jafnaðarmanna í Norðurlandaráði er skýrt. Þegar heimurinn brennur verðum við á Norðurlöndum að nota hnattræna stöðu okkar til að styðja við lýðræðislega og friðsamlega þróun í heiminum. Með gagnkvæmri virðingu verðum við að dýpka og efla norrænt varnar- og öryggissamstarf.

Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre, komst vel að orði á blaðamannafundi 9. febrúar 2022: „Sum landanna eru aðilar að NATO, sum eru aðilar að ESB, öll eru þau Norðurlönd“. Norðurlöndin eru sérstakt svæði. Samstarf Norðurlanda í varnar- og öryggismálum gæti verið með öðru sniði en það sem á sér stað innan NATO eða ESB.

Besta vörnin verður ávallt að gera óvin þinn að vini og á Norðurlöndum höfum við bæði það orðspor og þá sérfræðiþekkingu sem þarf til að aðstoða lönd í lýðræðisþróunarferli þeirra.

Þegar einræðisstjórn Pútíns fellur mun rússneska þjóðin fá annað tækifæri til að verða hluti af lýðræðissamfélagi heimsins. Þegar að því kemur má rússneska þjóðin vita að við á Norðurlöndunum erum reiðubúin að hjálpa nágrönnum okkar.

Í Norðurlandaráði sitjum við ekki auðum höndum en með þátttöku virkra og ákveðinna félaga styrkjast norræn samskipti og norrænt samfélag verður stærra. Norðurlöndin eru sönnun þess að við getum gert vini úr gömlum óvinum og skapað betri og bjartari framtíð. Saman.

Fyrir hönd flokkahóps jafnaðarmanna í Norðurlandaráði

Oddný G. Harðardóttir, Alþingismaður

Annette Lind, þingmaður, Danmörku

Gunilla Carlsson, þingmaður, Svíþjóð

Erkki Tuomioja, þingmaður, Finnlandi

Jorodd Asphjell, þingmaður, Noregi

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. mars 2022 og í fjölmiðlum á öllun Norðurlöndunum