Heilbrigðisstofnunin okkar

Íbúafjölgun á Suðurnesjum hefur verið með ólíkindum undanfarin ár. Íbúum hefur fjölgað um 22% á síðustu þremur árum. Um 30% frá árinu 2013. Það er gleðileg þróun sem sýnir að atvinna er hér næg og skilyrði til búsetu aðlaðandi. En skilyrðin verða ekki aðlaðandi til lengdar ef hornsteinar samfélagsins molna.

Styrka stoðin

Styrkasta stoðin undir velferðarsamfélög er góð heilbrigðisþjónusta fyrir alla. Okkar heilbrigðisstofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, er stóra stoðin undir samfélögin á Suðurnesjum. Hana er nú markvisst verið að veikja í góðærinu, vegna þess að ekki er brugðist við fjölgun íbúa á svæðinu og álagi á starfsfólk og búnað sem henni fylgja. Aðstæðurnar kalla á aukið fjármagn úr ríkissjóði. Aðstæðurnar kalla á að ríkisstjórnin og stjórnarþingmenn bregðist við eins og þeir voru búnir að lofa. Og það er enn mögulegt að gera það. Fjárlögin hafa ekki enn verið samþykkt og frágengin en það mun væntanlega gerast innan fárra daga.

Bregðast þarf við

Það verður að bregðast við því að þjónustuþörf hefur aukist verulega á undanförnum árum í samræmi við fjölgun íbúa og fordæmalausrar fjölgunar ferðamanna og stóraukinnar starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Heilbrigðisstofnunin hefur reynt eftir fremsta megni að mæta aukinni þjónustuþörf og það tekist að hluta til að sögn forstöðumanns. Ýmsir flöskuhálsar takmarki það þó, t.d. of mikið álag á starfsfólk, húsnæðið setji starfseminni skorður og fjármagn til rekstrar sé að skornum skammti. Við vitum öll að gott starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja gerir allt sem það getur en álagið getur einfaldlega orðið of mikið.

Óásættanleg staða

Samkvæmt greiningu stofnunarinnar þarf að bæta 281 milljón króna við tillögur ríkisstjórnarinnar og þingmanna sem styðja hana, fyrir þriðju umræðu fjárlaga.

Á fundi með sveitarstjórnarmönnum úti í Garði með þingmönnum kjördæmisins lofuðu stjórnarþingmennirnir öllu fögru. Einn þeirra sagðist ekki ætla að styðja frumvarpið ef ekki fengist fjármagn til að mæta íbúafjölguninni.

En loforðin hafa ekki verið efnd og það kom ekki ein króna til viðbótar í tillögum meirihlutans þegar að breytingartillögur voru samþykktar við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins. Og það er algjörlega óásættanlegt! Við Suðurnesjamenn getum ekki sætt okkur við að í bullandi góðæri sjái ríkið ekki til þess að við fáum heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum svæðisins. Ég hvet ykkur öll til að þrýsta á stjórnarþingmenn sem þið þekkið til að efna loforðin með breytingatillögu við fjárlög á næstu dögum um aukið fjármagn til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Það er nauðsynlegt og réttlátt og ríkissjóður hefur efni á því.

Greinin birtist í Víkurfréttum