Hætta á sárafátækt

Hætta á sárafátækt

Í haust blasir sárafátækt við mörgum fjölskyldum á Suðurnesjum ef ekkert verður að gert. Suðurnesin er landshlutinn sem í heild verður verst úti vegna atvinnuleysis en í mörgum sveitarfélögum um landið sem orðið hafa fyrir tekjufalli, verða fjölskyldur í miklum vanda.

Á íslenskum vinnumarkaði öðlast fólk fullan rétt á 30 mánaða atvinnuleysisbótum eftir 12 mánuði á vinnumarkaði, þar af eru þrír mánuðir tekjutengdir. Hámark tekjutengingar er um 456 þúsund krónur á mánuði og grunnatvinnuleysisbætur eru rúmar 289 þúsunda krónur. Margir þeirra sem fóru á atvinnuleysisbætur eftir fall WOW höfðu ekki verið á vinnumarkaði í 12 mánuði. Vel á annað hundrað manns mun fullnýta  rétt sinn á næstu vikum. Við þessu fólki blasir ekkert annað en fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og aðstoð sjálfboðaliða með matargjafir.

Það framfleytir sér enginn  á grunnatvinnuleysisbótum einum og enn síður á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem er á bilinu um 150 - 200 þúsund krónum á mánuði. Aðstoðin er misjöfn eftir sveitarfélögum og skilyrðin fyrir aðstoð eru það líka. Afkoman fer eftir því hvar fólkið býr.

Í Reykjanesbæ, þar sem atvinnuleysið var mest fyrir og er mest eftir Covid mun sárasta vandans fyrst  gæta. Þar er fjárhagsaðstoðin 45% af lágmarkslaunum og helmingur grunnatvinnuleysisbóta.

Hvað er til ráða? Ríkisstjórnin þarf  í fyrsta lagi að hækka grunnatvinnuleysisbætur upp um krónutöluhækkun lægstu launa samkvæmt lífskjarasamningi. Og því til viðbótar að lengja í því tímabili sem fólk getur verið á atvinnuleysisbótum.

Með þessum aðgerðum mun ríkið gera sveitarfélögunum kleift að hlúa  að börnum sem búa við fátækt og tryggja  að þau fái mat í skólanum, geti notið tómstunda og farið í leikskóla líkt og önnur börn.

Aukaverkanir langtímaatvinnuleysis eru vel þekktar og slæmar. Stöðugar fjárhagsáhyggjur og félagsleg einangrun eykur líkur á varanlegri örorku. Vímuefnaneysla, þunglyndi og heimilisofbeldi eru einnig þekktar aukaverkanir.

Það er skylda ríkisstjórnarinnar að bregðast við. Úrræðalaus verður hún að víkja strax!

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. júlí 2020.