Forréttindi útvalinna

Forréttindi útvalinna

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Skattinum hagnast flestir af tekjuhæsta eina prósentinu af auðlindum þjóðarinnar og allir þeir sem greiða meira en 300 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt eru útgerðarmenn - nema einn. Skattur af fjármagnstekjum er 22% og ekkert útsvar rennur af þeim tekjum til sveitarfélaga. Þeir sem fá fjármagnstekjur greiða því lægri skatta en launamenn.

Samþjöppun í sjávarútvegi er mikil og fáir útgerðarrisar verða stöðugt ríkari og valdameiri í samfélaginu.

Við Íslendingar höldum takmörkuðu gæðunum hjá fáum útvöldum og komum okkur ekki saman um sanngjörn auðlindagjöld. Við í Samfylkingunni köllum eftir breytingum og einfaldasta leiðin að réttlætinu er útboð á aflaheimildum. Að á hverju ári haldi kvótahafar 95% af úthlutuðum kvóta en 5% fari í útboð með leigusamningum til ákveðins tíma. Þar með finnum við verðið sem útgerðirnar eru í raun tilbúnar til að greiða fyrir veiðiheimildir og opnum fyrir nýliðun í greininni. Auðvelt er að semja útboðsreglur sem draga úr samþjöppun og gæta að byggðasjónarmiðum. 

Útboð eru hin almenna regla og viðhöfð þegar ríkið úthlutar réttindum eða verkefnum til fyrirtækja, hvort sem úthluta á takmörkuðum gæðum líkt og losunarheimildum og tíðnisviði eða úthlutun stórframkvæmda og veitingu sérleyfa í samgöngum. Forréttindaúthlutun sem tíðkast í sjávarútvegi gengur gegn stefnu jafnaðarmanna.

Í dag greiða útgerðirnar rúmar 17 krónur í veiðigjald fyrir kíló af þorski sem rennur í ríkissjóð en leiguverðið er rúmar 400 krónur samkvæmt vef Fiskistofu um aflamarksviðskipti, útboði útgerðanna sín á milli. Þar gilda markaðslögmálin og krónurnar renna í vasa útgerðarmanna og þaðan í vasa erfingja þeirra líkt og stærsti hluti arðseminnar af nýtingu auðlindarinnar. Og óréttlætið og ójöfnuðurinn viðhelst og erfist.

Stjórnvöld þurfa að standa í lappirnar og hafa kjark til að breyta lögum um tengda aðila sjávarútvegsfyrirtækja, vinna gegn samþjöppun, koma á útboði á aflaheimildum til að gera nýliðun mögulega og fá sanngjarnt veiðigjald í ríkissjóð.