Endurreisum Þjóðhagsstofnun

Hvernig má það vera að þjóð sem hefur farið í gegnum alvarlega efnahagskreppu eftir hrun bankanna haustið 2008, skuli ekki hafa endurreist Þjóðhagsstofnun. Láti þess í stað hagsmunaaðilum eftir að greina og meta ákvarðanir stjórnvalda.

Aðstæður nú í heimsfaraldri sýna með skýrum hætti að við þurfum óháða stofnun sem heyrir undir Alþingi og er hæf til að benda á hættur sem geta falist í ákvörðunum stjórnvalda í efnahagsmálum, ásamt því að gefa ráð um hvað betur mætti fara með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Á árunum 1974–2002 var starfandi þjóðhagsstofnun hér á landi sem átti að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðgjafar í efnahagsmálum. Ákvörðun um að leggja niður Þjóðhagsstofnun hefur alla tíð verið mjög umdeild.

Nú er umhverfið annað. Samtök aðila vinnumarkaðarins leggja fram greiningar í efnahagsmálum en einnig eru greiningardeildir innan bankanna og aðrir aðilar svo sem Viðskiptaráð, sem gera greiningar á efnahagshorfum. Allt eru þetta hagsmunasamtök af einhverju tagi og óábyrgt að láta sem ekki komi til greina að greiningar geti verið litaðar af hagsmunum. Þess vegna er brýnt að í landinu sé stofnun sem treysta má með nokkurri vissu að dragi ekki taum ákveðinna hagsmunaafla heldur hafi þjóðarhagsmuni að leiðarljósi.

Í 1. bindi í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008 segir: „Til þess að skapa hlutlausan grundvöll fyrir samhæfingu efnahagsstefnunnar mætti fela sjálfstæðri ríkisstofnun það hlutverk að spá fyrir um efnahagshorfurnar og meta ástand efnahagsmála og líklega þróun að gefnum forsendum um mismunandi efnahagsstefnu.“

Það er löngu tímabært að Alþingi bregðist við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og endurreisi Þjóðhagsstofnun líkt og frumvarp Samfylkingarinnar þar um gerir ráð fyrir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. desember 2020