COVID og Suðurnesin

Atvinnuleysi vex mjög hratt á Suðurnesjum þessa dagana. Hópuppsagnir eru komnar vel á annan tug. Stærsti vinnustaðurinn, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og starfsemi við flugvöllinn liggur nánast alveg niðri. Hótelin tóm og flestir veitingarstaðir hafa skellt í lás. Tengd starfsemi lamast um leið.

Hárgreiðslustofum, snyrtistofum og nuddstofum hefur verðið gert að loka. Uggur er í fólki og það er skiljanlegt. Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af heilsufari okkar og okkar nánustu. Áhyggjur af efnahag koma seinna. En stjórnvöld verða að reyna að sjá fram í tímann, meta áhrifin og grípa til aðgerða til að vinna gegn því að faraldur sem gengur yfir valdi enn frekari skaða til lengri tíma. Skaða á samfélagi og efnahag fólks, fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga.

Undanfarin ár hef ég talað fyrir því á Alþingi að litið verði sérstaklega til Suðurnesja og þjónustu stofnana ríkisins við svæðið og innviða samfélaganna sem standa veikir fyrir. Ég leyfi mér að segja það umbúðalaust að yfirleitt hefur ábendingum mínum og tillögum verið mætt af fálæti að hálfu stjórnvalda. Afleiðingar heimsfaraldursins skella þungt og með hraða á landsmönnum öllum. Suðurnesin standa sérlega berskjölduð með ferðaþjónustuna sem lang stærstu atvinnugreinina og heilbrigðisstofnun sem hefur fengið lang fæstar krónur á íbúa miðað við aðra landshluta í of mörg ár.

Skjól í stormi

Stjórnvöld verða að koma með ákveðnum og kröftugum hætti svæðinu til aðstoðar og styðja fólk og fyrirtæki á meðan að stormurinn fer yfir. Við þurfum öflugri Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, fjölbreyttari menntunartækifæri og árangursrík virkniúrræði fyrir atvinnulausa. Ríki og sveitarfélög verða að skapa fleiri störf í boði fyrir atvinnuleitendur. Þetta þurfum við m.a. til viðbótar almennum aðgerðum stjórnvalda.

Í júní í fyrra samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem ég mælti fyrir í október 2018. Alþingi samþykkti þá að skipa nefnd sérfræðina fimm ráðuneyta og fulltrúa sveitarfélaga á Suðurnesjum til að koma með tillögur að aðgerðum til að styrkja innviði samfélagsins. Nefndin átti að skila niðurstöðum 1. desember 2019. Ekkert bólar á niðurstöðum enda drógu stjórnvöld lappirnar við að setja starfið í gang, sem sýnir ekki mikinn áhuga fyrir verkefninu.

Sama fálætið sem fyrr

Við stöndum í auga stormsins þessa dagana. Við Suðurnesjamenn verðum að standa saman og standa af okkur storminn. Ég skora á sveitarstjórnarmenn að standa þétt saman og sækja ákveðið þær bjargir sem ríkið getur veitt. Ríkisstjórnin og þingmenn svæðisins verða að gera mun betur. Ég vona að ykkur heilsist öllum vel og að þið virðið tilmæli Almannavarna og landlæknis. Takmarkanir eru og verða nauðsynlegar enn um sinn en öll él styttir upp um síðir og lífið fer aftur í eðlilegt horf þegar að faraldurinn er genginn yfir.

Greinin birtist í Víkurfréttum