Brexit

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi eru stórtíðindi. Hún vekur upp áhyggjur af áhrifum popúlista og rasista í Evrópu og hún gengur þvert á ráðleggingar flestra sérfræðinga, atvinnulífs og forystumanna í breskum stjórnmálum. Breska þjóðin er klofin og mikið verk framundan hjá Bretum að vinna úr stöðunni og sætta fylkingar. Skotland og Norður Írland kusu með áframhaldandi aðild og óljóst hver viðbrögð þeirra verða.

En ekki síst verður þörf á að sætta á afstöðu kynslóðanna, unga fólksins og þeirra sem eldri eru. Ungt fólk vildi frekar vera áfram innan ESB, en verður nú ekki lengur hluti af hinu opna evrópska samfélagi. Það verður að gefa þeim von um að framtíð þeirra sé þrátt fyrir það björt og örugg.

Í hönd fer nú efnahagsleg óvissa sem enginn veit hvar endar. Fyrstu viðbrögð eru að markaðir falla, pundið veikist umtalsvert og forsætisráðherrann segir af sér. Bretland er enn ósjálfbært um orku og mun þurfa að tryggja sér gas og olíu, rétt eins og um miðja síðustu öld þegar tryggja þurfti aðgang að kolum og stáli. Þessi niðurstaða mun væntanlega breyta Evrópusambandinu og Evrópusamvinnu, og við Íslendingar verðum að fylgjast vel með og meta stöðuna hverju sinni með hagsmuni okkar að leiðarljósi.

Ein leið væri að hvetja til þess að Bretar verði innan EES eða EFTA. En ef til vill munum við nú heyja varnarbaráttu fyrir þá samninga, á meðan Bretar og Evrópusambandið semja um úrsögn.

Samfylkingin er alþjóðlegur og opinn flokkur og við viljum mikla samvinnu við aðrar þjóðir. Þessi niðurstaða breytir því ekki. Við viljum að þjóðin fái að ráða um aðild að ESB, en við höfum hvorki fengið að klára samninginn til að bera hann undir þjóðina, né fengið að kjósa um áframhald viðræðna. Stjórnmálamenn í Bretlandi voru ekki smeykir við að spyrja þjóðina. Sennilega hefur svokallaður „ómöguleiki“ ekki verið uppgötvaður í breskum stjórnmálum.

Tryggja þarf stöðugleika í Evrópu, og að þjóðernisrembingur nái ekki yfirhöndinni yfir friðarbandalaginu sem tryggt hefur góð lífskjör og öryggi borgara sinna allt frá síðari heimstyrjöld. Vonum að Bretland og Evrópusambandið finni leiðina áfram í sameiningu.