Atvinnusköpun á óvissutímum

Á þessum alvarlegu óvissutímum, þegar bregðast þarf snöggt við bráðavanda er hollt að gefa sér tíma til að líta upp og horfa til framtíðar. Líta upp og koma auga á tækifærin sem bíða og lausnir sem færa þau nær okkur.

Á þessum alvarlegu óvissutímum er þó eitt víst. Það verður að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið. Ferðaþjónustan verður örugglega áfram í stóru hlutverki en fleira þarf að koma til. Nýsköpun er lykilhugtak og grundvallaratriði fyrir sjálfstæða þjóð sem einsetur sér að efla velferð og skapa fólki lífskilyrði á borð við það sem best þekkist meðal þjóða.

Ný verkefni, ný viðfangsefni bíða og tækni fleygir fram. Fjórða iðnbyltingin er hafin og með henni verða stórfelldar samfélagsbreytingar á næstu árum og áratugum.

Það eru margir spennandi hlutir að gerast á þessu sviði á Íslandi. Sprotar eru við það að skjóta rótum og ef þeir fá góðan jarðveg og ná að festa rætur munu þeir gefa vel af sér. Það eru reyndar til fyrirtæki sem náð hafa þessari nauðsynlegu rótfestu, eru fyrirmyndir á þessu sviði og orðin burðug, öflug og skipta miklu máli í íslensku atvinnulífi. Þetta eru þróuð hátæknifyrirtæki sem hafa haslað sér völl á alþjóðamörkuðum.

Við þurfum að skapa jarðveg fyrir fleiri fyrirtæki sem geta boðið í framtíðinni vellaunuð störf. Störf sem reyna á menntun og þá þekkingu sem býr meðal þjóðarinnar.

Möguleikar landsbyggðarinnar

Nýsköpunin á landsbyggðinni er mikilvæg en á sama tíma brothætt og það er sjálfstætt áhyggjuefni. Á Alþingi er jafnan rætt um að nýsköpun eigi að raða framarlega á forgangslistum en aldrei eins og nú. Þessa dagana er fjallað um lagabreytingar og ýmis jákvæð atriði sem lúta að nýsköpunarfyrirtækjum sem þverpólitísk sátt er um.

Umsóknir og úthlutanir til nýrra verkefna koma þó nær allar frá höfuðborgarsvæðinu. Landsbyggðirnar verða að koma þar sterkari inn. Margir þar búa yfir góðum hugmyndum en þurfa hvatningu og stuðning til að komst af stað, þróa hugmyndir og móta og koma í framkvæmanlegt ferli. Áhuga og færni skortir ekki og þekking býr um land allt.

Í Suðurkjördæmi eru mörg dæmi um stór og smá nýsköpunarverkefni sem hafa skapað verðmæti og störf. Dæmin eru um vörur unnar úr fiskafurðum, í matvælaiðnaði, snyrtivöruframleiðslu, í ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja.

Löggjafinn á að skapa almennar forsendur til að nýsköpun fái að dafna en það þarf að taka sérstakt tillit til aðstæðna þar sem fjarlægðir eru talsverðar og kostnaðarsamt að afla aðfanga og koma þeim sömu leið á markað. Flutningsjöfnun, bæði á aðföngum og eldsneyti er því ein af forsendunum. Þar sem nýsköpun byggist á hugviti og rafrænum lausnum, þá skipta þessir þættir líka máli en vissulega í minna mæli.

COVID-19 aðgerðarpakkar

Í aðgerðarpökkum vegna COVID-19 er fjármunum veitt til nýsköpunar, þróunar og til skapandi greina. Það er gott svo langt sem það nær en það þarf að gera enn betur.  Þetta eru atriði sem auðvelda fyrirtækjum og einstaklingum að takast á við afleiðingar COVID veirufaraldursins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta eru hins vegar bara aðgerðir til bráðabirgða en ekki til frambúðar.

Nýsköpunar- og sprotafyrirtæki búa við of mikla óvissu og það er erfitt fyrir mörg þeirra að gera lengri tíma áætlanir um þróun og vöxt.

Þegar fyrirtæki horfast í augu við versnandi efnahag á meðan heimsfaraldurinn gengur yfir, gæti verið freistandi að skera niður rannsóknarverkefni innan fyrirtækjanna. Ríkið þarf að vinna gegn þessu með öflugum styrkjum og hvatningu til enn meiri rannsókna, þróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu.

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 4. júní 2020