Áttavilltir ráðamenn

Áttavilltir ráðamenn

Seðlabankastjóri tilkynnti sumarið 2020 að Ísland væri orðið lágvaxtaland. Hann boðaði nýja tíma og sagði að í fyrsta sinn væri það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti. Fólkið sem trúði honum glímir nú við stóraukna greiðslubyrði vegna húsnæðislána. En bankarnir græða.

Fyrir kosningarnar 2021 talaði fjármálaráðherrann líka um lága vexti og lága verðbólgu á Íslandi sem komin væru til að vera.

Orð þessara manna vega þungt stöðu þeirra vegna. Of margir trúðu þeim og héldu um stund að ekkert samband væri lengur á milli vaxtastigs, gengisþróunar og verðlags.

Þegar stýrivaxtahækkanir voru tilkynntar í byrjun október í fyrra sagði seðlabankastjóri að verðbólga væri að ganga niður og vonaðist til að þetta yrði síðasta vaxtahækkun Seðlabankans í þessu ferli. Síðan þá hafa stýrivextir verið hækkaðir eftir hvern fund peningastefnunefndar, eru nú 8.75% líkt og árið 2010. Verðbólgan hefur ekki gengið niður en lánin hækkað og heimilin bera kostnaðinn, þyngstan þau sem treystu því að ráðamenn færu ekki með fleipur og tóku óverðtryggð lán.

Hluti vanda okkar er tengdur íslensku krónunni. Á meðan við búum við krónuna  verður vaxtastigið hærra hér á landi en í evrulöndunum og almenningur ber kostnaðinn.

Nú er svo komið að umtalsverður hópur fólks frestar læknisheimsóknum og sækir ekki lyfin sín vegna þess að það hefur ekki efni á því. Þetta á ekki síst við um öryrkja, lágtekjufólk og einstæða foreldra. Margir úr sama hópi búa við verulega kostnaðarbyrði vegna heilbrigðisútgjalda. Sú staða bætist ofan á vandann sem fylgir hærri húsnæðiskostnaði og verði á nauðsynjavörum.

Vandinn er ekki einungis sá að kjör þeirra sem veikastir standa fyrir séu afleit heldur hefur heilbrigðiskerfið líka þróast í óæskilegar áttir og færist fjær félagslegu heilbrigðiskerfi ár frá ári. Og kostnaði er velt yfir á sjúklingana.

Atvinnumálin hafa líka fengið að þróast út og suður með öflugum vexti á einum stað sem bitnar harkalega á öðrum. Búist er við miklum ferðamannafjölda í sumar sem eykur sannarlega peningamagn í umferð og magnar einnig upp húsnæðisvandann.

Bankarnir hafa lánað heimilum og fyrirtækjum umtalsvert frá covid tímanum þegar vextir voru lækkaðir og Seðlabankinn afnam bindiskyldu bankanna. Nú vill Seðlabankinn hins vegar slá á útlánin með hærri vöxtum og ná niður verðbólgu sem þó sér ekki fyrir endann á.

Staðan er mjög alvarlega og kallar á tafarlaus viðbrögð ríkisstjórnarinnar með húsnæðisstuðningi og stuðningi við barnafjölskyldur. Ákvarðanir um skarpa uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis verður að taka strax og marka skýra stefnu í heilbrigðis-, atvinnu- og gjaldeyrismálum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. maí 2023