Allir sáttir?

Allir sáttir?

Með reglulegu millibili upphefst umræða um hver eigi fiskveiðiauðlindina. Hver eigi kvótann.

Síldarvinnslan keypti nýlega fjölskyldufyrirtækið Vísi í Grindavík. Með þeim kaupum var kvótinn metinn til fjár. Markaðsverðið rennur í vasa fyrrum eigenda Vísis, sex systkina úr Grindavík. Áttu þau þá kvótann eftir allt saman?

Samkvæmt 1. grein laga um stjórn fiskveiða er alveg skýrt að fiskveiðiauðlindin er eign íslensku þjóðarinnar. Greinin hljóðar svona: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Jöfnum leikinn

Ofsagróði stóru útgerðanna hefur ruðningsáhrif. Örfáir aðilar hafa orðið allt of valdamiklir í samfélaginu og teygja arma sína um allt viðskiptalífið með fjárfestingum utan greinarinnar. Veiðigjöldin sem þessar útgerðir greiða eru skammarlega lág og það blasir við að þjóðin fær ekki réttlátan hlut í arðinum.

Nú þegar almenningur þarf að bera kostnaðinn af hærri verðbólgu með hækkandi verði á matvörum, hærra húsnæðisverði, hærri leigu og hærri vöxtum á lánum er eðlilegt að fólk spyrji hvers vegna stjórnvöld sjái ekki til þess að stærri hluti arðsins af auðlindinni renni í ríkissjóð og þaðan til að greiða fyrir mótvægisaðgerðir til að jafna leikinn.

Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarrisa í öðrum útgerðum. Lagagreinarnar um kvótaþak og tengda aðila eru svo óskýrar að Fiskistofu er ómögulegt að fara með skilvirkt eftirlit með skaðlegri samþjöppun í greininni.

Málið dautt

Nýliðun innan greinarinnar er nánast ómöguleg nema með kvótaleigu á okurverði af þeim sömu sem sjálfir greiða slikk fyrir úthlutaðan kvóta. Það er algjörlega óásættanlegt hversu lítill hluti hagnaðar af fiskveiðiauðlindinni rennur í ríkissjóð. Og fráleit staða að markaðsverð á kvótanum renni úr vasa útgerðarmannanna í vasa barna þeirra og auður safnist á fárra hendur. En ríkissjóður fái örfáar krónur fyrir auðlindina, svo fáar að þær standa ekki einu sinni undir þjónustu við greinina.

Það er réttlætismál að fólkið í landinu fái fullt verð fyrir veiðileyfin. Að sanngjarnt veiðigjald renni til samfélagsins, til allra íslenskra barna.

Nýr matvælaráðherra hefur sett sjávarútvegsmálin í nefnd. Málið er á meðan dautt. Eru þá ekki allir sáttir?

Nei það eru ekki allir sáttir. Við þurfum nýja ríkisstjórn sem tekur á sjávarútvegsmálunum af festu. Við þurfum fullt verð fyrir kvótann, tækifæti til nýliðunar, skilvirkt eftirlit með auðlindinni og jafnræði á milli kvótalausra útgerða, þeirra sem treysta á fiskmarkaði og hinna sem stunda bæði veiðar og vinnslu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu