Sarpur
Höfundur: oddmin

Ríkisstjórn á fyrirvara

Ríkisstjórn á fyrirvara

Það kom mér á óvart að lesa það í stuttri grein í Fréttablaðinu eftir félags- og húsnæðismálaráðherra að hún hefði samþykkt fimm ára fjármálaáætlun ríkisins með fyrirvara þegar að áætlunin var til afgreiðslu á ríkisstjórnarfundi. Þetta er sannarlega stórfrétt. Fyrirvarinn kom ekki fram þegar að mælt var fyrir áætluninni á Alþingi og ekki heldur við umræður í fjárlaganefnd um málið. Þvert á móti lagði meirihluti fjárlaganefndar til með framsóknarþingmann í forystu, að fjármálaáætlunin yrði samþykkt óbreytt.

Ráðherra tekur undir gagnrýni mína, ASÍ og fleiri á lækkun vaxtabóta og barnabóta. Hvoru tveggja mun koma illa við ungar barnafjölskyldur verði stefnan látin standa óbreytt og auka ójöfnuð hér á landi.

Alvarlegir fyrirvarar
Félags- og húsnæðismálaráðherra segir að hún hafi gert alvarlega fyrirvara við afgreiðslu fimm ára áætlunar ríkisstjórnarinnar. Fjármálaáætlunin er hins vegar grunnur fjárlagafrumvarps sem er helsta stefnuplagg stjórnvalda. Fyrirvarinn er því sannarlega alvarlegur, ekki síst fyrir samstarf stjórnarflokkanna.

Reyndar gerði fjármála- og efnahagsráðherra eins konar fyrirvara við fjármálaáætlunina í viðtölum í fjölmiðlum síðustu daga. Þar sagðist hann meðal annars vilja að Landspítalinn fengi umtalsverði hærri fjárveitingar til rekstrar en nú er og þar með mælti hann gegn eigin fjármálaáætlun.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þessu til viðbótar gagnrýnt búvörusamningana ákaft síðustu daga og samkvæmt því virðist ekki vera meirihluti á þingi fyrir samningum sem bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa nú þegar skrifað undir.

Ríkisstjórn ríka fólksins er því stýrt með alls konar fyrirvörum síðustu lífdagana. Það er ekki trúverðugt eða merki um stefnufestu og vönduð vinnubrögð.

Þessi grein birtist í Eyjunni 19.07. 2016

Heilbrigðismál í forgang

Heilbrigðismál í forgang

Allt er mögulegt í hópíþróttum með góðri liðsheild, undirbúningi og skipulagi eins og nýleg dæmi sanna. Það á líka við í stjórnmálum.

Við viljum bæta heilbrigðisþjónustuna og það er hægt ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Verkefnið er flókið en skýr forgangsröðun, samtakamáttur og skipulag mun skila okkur betri stöðu á fáum árum. Fyrst og síðast þurfa stjórnvöld að afla tekna til að setja í heilbrigðisþjónustuna.

Á undanförnum vikum höfum við í Samfylkingunni heimsótt heilbrigðisstofnanir og stéttarfélög og öllum ber saman um að lítið sé að marka fögur fyrirheit stjórnvalda um aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustuna. Kári Stefánsson lagði til að 11 prósentum landsframleiðslunnar yrði varið í heilbrigðisþjónustuna. Það er ekki fjarri lagi.

Slík hækkun núna myndi þýða að Landspítalinn hefði um 18 milljarða aukalega til að spila úr og gæti byggt upp mikilvæga þjónustu, mannað allar stöður og nútímavætt tæknibúnað sinn. Meirihluti landsmanna vill frekar verja almannafé í opinbera þjónustu heldur en einkarekstur og það viljum við líka.

Mikið hefur verið rætt um stöðu lækna á Íslandi, enda áhyggjuefni að ungir læknar snúi ekki aftur heim að loknu námi. Staða hjúkrunarfræðinga er ekki síður áhyggjuefni. Á næstu þremur árum komast um það bil 700-900 hjúkrunarfræðingar á eftirlaunaaldur.

Í staðinn útskrifast aðeins um 450 hjúkrunarfræðingar úr námi og margir þeirra munu velja sér önnur störf. Fækkun hjúkrunarfræðinga hefði víðtækari áhrif á næstu árum heldur en fækkun lækna, og það verður að finna leiðir til þess að fjölga í stéttinni.

Fleiri stéttir, sem konur fylla að mestu, þurfa jafnframt athygli stjórnvalda svo sem geislafræðingar, sjúkraþjálfarar og líftæknifræðingar. Það þarf að grípa til aðgerða nú þegar og efla háskólana á þessum sviðum.

Halda mætti að almenn sátt ríkti um þessi markmið en svo virðist ekki vera.

Í ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára er ekki að finna þá aukningu á fjárframlögum sem nauðsynleg er til að viðhalda núverandi ástandi, hvað þá til að bæta þjónustuna. Ef við ætlum að fá betri heilbrigðisþjónustu á næstu árum, verður ný ríkisstjórn að taka við sem skilur að heilbrigði er undirstaða velmegunar og hamingju.
Oddný G. Harðardóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu, þann 13. júlí 2016

Skattsvik og þrælahald

Skattsvik og þrælahald

Fyrirsögnin er ógeðfelld en þetta eru samt orðin sem lýsa best því sem verkalýðsfélög víða um land horfa upp á. Í verktakabransanum eru til fyrirtæki sem vilja hlunnfara erlenda starfsmenn með því að greiða þeim laun sem ná ekki lágmarkslaunum hér á landi.  Í ferðaþjónustunni ríkir eins konar gullgrafaraæði þar sem það sama fyrirfinnst. Reynt er að hafa laun af fólki og svört atvinnustarfsemi viðgengst. Þó flestir fari sem betur fer eftir lögum ber þetta okkur ekki fagurt vitni. Það ætti enginn að hylma yfir með þeim svíkja undan skatti eða hafa umsamin laun af fólki. Það eru ekki aðeins erlendir starfsmenn sem verða fyrir barðinu á þeim sem vilja skyndigróða og brjóta lögin. Mörg dæmi er um að illa sé komið fram við ungt fólk sem starfar í veitingahúsum eða hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Dæmi eru til að mynda um að starfsmenn fái engin útgreidd laun og séu titlaðir lærlingar þó enginn sé kennarinn eða skólinn.

Til að uppræta þessa skömm og lögleysu þarf eftirfarandi að gerast:

  • Félög atvinnurekenda og verkalýðsfélög taki höndum saman við eftirlit með launagreiðslum.
  • Aðalverktakar beri ábyrgð á því að undirverktakar fari  að íslenskum lögum og launasamningum.
  • Efla þarf eftirlit Ríkisskattsstjóra.
  • Beita á sektum og leyfissviptingum ef fyrirtæki fara ekki eftir samningum um lágmarkslaun og aðbúnað starfsfólks.

Jafnaðarmenn geta ekki setið þöglir hjá og látið verkalýðsfélög ein um að benda á skattsvik og bera ábyrgð á að uppræta það sem kalla má með réttu  þrælahald hér á landi. Við í Samfylkingunni munum ekki þegja yfir slíku eða samþykkja með fjársvelti eftirlitsstofnana eins og nú er gert. Við munum einnig beita okkur fyrir lagasetningu sem skýrir ábyrgðarsvið þeirra sem um ræðir.

Tekjur af ferðamönnum

Tekjur af ferðamönnum

Ferðaþjónustan er á skömmum tíma orðin stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Því fylgja góðar gjaldeyristekjur og atvinnutækifæri en einnig það að fleiri nýta sér þjónustu sem greidd er úr ríkissjóði. Ríkisstjórnin hefur ekki brugðist við auknum kostnaði og er bæði stefnu- og ráðalaus sem bitnar á þjónustu við ferðamenn og íbúa landsins.
Ef ekki verður gripið um stjórnartaumana er líklegast að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar skaðist og að fjárfestingar sem ráðist hefur verið í beri sig ekki, með slæmum fjárhagslegum afleiðingum.
Við í Samfylkingunni krefjumst aðgerða strax og viljum að:

Heilbrigðisþjónusta og sjúkraflutningar verði styrktir um allt land.
Lögreglu verði gert kleift að sinna íbúum jafnt sem ferðamönnum.
Viðhald vega verði aukið umtalsvert.
Öryggi ferðamanna verði bætt og uppbygging ferðamannastaða efld.
Íbúðum verði fjölgað verulega, svo ásókn ferðaþjónustunnar spenni ekki upp húsnæðisverð og framboð verði nægilegt fyrir fjölskyldur sem þurfa þak yfir höfuðið.
Tekjur af ferðamönnum renni líka til sveitarfélaga.

Ferðamenn greiða lágan virðisaukaskatt af gistingu og afþreyingu. Með hækkun virðisaukaskatts í almennt þrep með hæfilegum aðlögunartíma fengjust um tíu milljarðar króna árlega í ríkissjóð til að mæta auknum útgjöldum. Ég tel það einföldustu og bestu leiðina til að bregðast við vandanum. Og í virðisaukaskattskerfinu er allt klappað og klárt.

Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefur leitt til þess að almenningur ber nú kostnaðinn en ferðamennirnir fá afslátt. Það gengur ekki lengur. Við verðum að stýra þróuninni og skapa ferðaþjónustunni almenn rekstrarskilyrði sem gefa tekjur til viðhalds vega, í heilbrigðisþjónustu, verndun náttúru og löggæslu. Þannig greiða ferðamennirnir fyrir uppbyggingu sem nýtist bæði greininni og íbúum um allt land.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Brexit

Brexit

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi eru stórtíðindi. Hún vekur upp áhyggjur af áhrifum popúlista og rasista í Evrópu og hún gengur þvert á ráðleggingar flestra sérfræðinga, atvinnulífs og forystumanna í breskum stjórnmálum. Breska þjóðin er klofin og mikið verk framundan hjá Bretum að vinna úr stöðunni og sætta fylkingar. Skotland og Norður Írland kusu með áframhaldandi aðild og óljóst hver viðbrögð þeirra verða.

En ekki síst verður þörf á að sætta á afstöðu kynslóðanna, unga fólksins og þeirra sem eldri eru. Ungt fólk vildi frekar vera áfram innan ESB, en verður nú ekki lengur hluti af hinu opna evrópska samfélagi. Það verður að gefa þeim von um að framtíð þeirra sé þrátt fyrir það björt og örugg.

Í hönd fer nú efnahagsleg óvissa sem enginn veit hvar endar. Fyrstu viðbrögð eru að markaðir falla, pundið veikist umtalsvert og forsætisráðherrann segir af sér. Bretland er enn ósjálfbært um orku og mun þurfa að tryggja sér gas og olíu, rétt eins og um miðja síðustu öld þegar tryggja þurfti aðgang að kolum og stáli. Þessi niðurstaða mun væntanlega breyta Evrópusambandinu og Evrópusamvinnu, og við Íslendingar verðum að fylgjast vel með og meta stöðuna hverju sinni með hagsmuni okkar að leiðarljósi.

Ein leið væri að hvetja til þess að Bretar verði innan EES eða EFTA. En ef til vill munum við nú heyja varnarbaráttu fyrir þá samninga, á meðan Bretar og Evrópusambandið semja um úrsögn.

Samfylkingin er alþjóðlegur og opinn flokkur og við viljum mikla samvinnu við aðrar þjóðir. Þessi niðurstaða breytir því ekki. Við viljum að þjóðin fái að ráða um aðild að ESB, en við höfum hvorki fengið að klára samninginn til að bera hann undir þjóðina, né fengið að kjósa um áframhald viðræðna. Stjórnmálamenn í Bretlandi voru ekki smeykir við að spyrja þjóðina. Sennilega hefur svokallaður „ómöguleiki“ ekki verið uppgötvaður í breskum stjórnmálum.

Tryggja þarf stöðugleika í Evrópu, og að þjóðernisrembingur nái ekki yfirhöndinni yfir friðarbandalaginu sem tryggt hefur góð lífskjör og öryggi borgara sinna allt frá síðari heimstyrjöld. Vonum að Bretland og Evrópusambandið finni leiðina áfram í sameiningu.

 

Búvörusamningar – fyrir hvern?

Búvörusamningar – fyrir hvern?

Vegna þeirra búvörusamninga, sem nú eru til umræðu í atvinnuveganefnd Alþingis, verða greiddir beint úr ríkissjóði um 14 milljarðar króna á hverju ári næstu 10 árin. Þegar slík upphæð rennur úr sameiginlegum sjóðum okkar þurfa rökin fyrir því að vera skotheld og almannahagur augljós. Ef ekki, geta alþingismenn ekki samþykkt frumvörpin.

Mörg sjónarmið og rök eru fyrir sérstökum stuðningi við landbúnað, bæði hér á landi og í öðrum löndum. Lægra verð á vöru, byggðasjónarmið og matvælaöryggi eru þau algengustu. Samfylkingin vill að stuðningi ríkisins við framleiðslu landbúnaðarvara verði breytt og að tekið verði upp árangursríkara fyrirkomulag sem styrkir um leið byggðir, eykur frelsi bænda, gerir nýliðun þeirra auðveldari, stuðlar að nýsköpun, eykur hagkvæmni framleiðslunnar og bætir hag neytenda.

Ungir bændur
Við fyrstu sýn er afar jákvætt að í samningunum er gert ráð fyrir að horfið verði frá framseljanlegu greiðslumarki, sem skaðað hefur hagsmuni yngri og nýrra kúabænda. En það á ekki að gerast fyrr en eftir fimm ár og til staðar er endurskoðunarákvæði sem gæti gert þau áform að engu. Framseljanleikinn hefur leitt til þess að opinber stuðningur, sem ætlaður var til að skapa framboð af góðri vöru á góðu verði, lendir hjá fjármagnseigendum, lánastofnunum og þeim sem hættir eru búskap. Ungur bóndi sem kaupir sig inn í kerfið er því í sömu stöðu og ef enginn opinber styrkur væri í boði. Þessu verður að breyta.

Neytendur
Hvað eru neytendur að fá fyrir þá miklu fjármuni sem settir eru í búvörusamninga? Hvers vegna eru engin skref tekin sem leyfa aukna samkeppni? Mat Samkeppniseftirlitsins er að samningarnir treysti fákeppni í sessi og það sé ekki aðeins skaðlegt fyrir neytendur heldur líka bændur. Koma samningarnir í raun til móts við byggðasjónarmið eða eru það aðeins örfá svæði sem njóta góðs af? Þessum  spurningum er enn ósvarað þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðherra málaflokksins um að ekki komi til greina annað en að samþykkja samningana. Óboðlegt er að þingmenn og almenningur fái ekki skýrari svör við þessum spurningum áður en frumvörpin koma til afgreiðslu Alþingis nú í haust.

Hvað væri góður samningur?
Skynsamleg landnýting, dýravelferð, sjálfbærni  og umhverfisvernd ættu að vera skilyrði fyrir opinberum stuðningi, en nýju samningarnir mæta alls ekki þessum áherslum Samfylkingarinnar og fjölmargra annarra sem hafa gert athugasemdir. Byggðastyrkir eða landræktarsamningar, eins og eru gerðir af hálfu Evrópusambandsins hafa mætt byggðasjónarmiðunum ágætlega og þær áherslur má nýta betur til að efla byggðir landsins og auka fjölbreytni í atvinnulífi.

Gæta þarf mun betur að hagsmunum neytenda sérstaklega þegar semja á til 10 ára, binda hendur Alþingis í meira en tvö kjörtímabil, án sýnilegs ávinnings og neinna kerfisbreytinga sem máli skipta. Stærsta breytingin er á verðlagningu búvöru án þess að útskýrt sé hvernig breytingarnar gagnast almenningi. Mat Samkeppniseftirlitsins er að ef frumvörpin verði að lögum muni það skapa réttaróvissu og skaða almannahagsmuni. Eftir stendur þá spurningin: Fyrir hvern vann ríkisstjórnin þegar hún samdi við bændur?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. júní 2016

Til í slaginn

Til í slaginn

Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, hefur ákveðið að blása til landsfundar 3.-4. júní, endurnýja forystusveit flokksins og skerpa á stefnumálunum. Samfylkingin mun mæta fersk til leiks að loknum landsfundi. Og það er tilhlökkunarefni fyrir alla þá sem þrá að finna baráttunni fyrir jafnrétti og réttlæti greiðan farveg. Ég vil leiða þá baráttu og vil að velferðarmálin verði þar sett í öndvegi.

Augljóst kosningamál jafnaðarmanna verður gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta enda eru gjöldin sem sjúklingar greiða allt of há og of margir draga það þess vegna að leita sér lækninga. Bygging nýs Landspítala, áætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila, framkvæmd geðheilsustefnu og betri heilsugæsla sem er samstillt félagsþjónustu sveitarfélaga, eru allt aðkallandi velferðarmál. Jafnrétti til náms verður einnig kosningamál samofið raunhæfri byggða-, mennta- og atvinnustefnu. Húsnæðisgreiðslur, barnagreiðslur og lengra fæðingarorlof mætir þörfum ungra barnafjölskyldna. Einfaldari og betri almannatryggingar eru nauðsynlegar.

Spilling
Til að fjármagna velferðina þarf fullt verð fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar að renna í ríkissjóð og allir þurfa að leggja sitt af mörkum. Með Panama-skjölunum komst upp um Íslendinga sem höfðu nýtt sér skattaskjól og sumir þeirra hafa væntanlega talið sér vera þar óhætt, í skjóli fyrir skattinum á Íslandi. Við eigum að nýta það tækifæri sem Panama-skjölin gefa okkur til að uppræta kerfi blekkingar og spillingar sem búið hefur verið til fyrir þá sem vilja komast hjá því að greiða sinn hlut til samfélagsins. Einhverjir eigendur aflandsfélaga fengu háar fjárhæðir afskrifaðar í kjölfar falls bankanna haustið 2008. Dæmi eru um að kröfur í þrotabú bankanna hafi verið vistaðar í aflands­félögum. Háar fjárhæðir hafa komið til landsins í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans og eigendur þess fjár fengið þar verulegan ábata. Upplýsa þarf hvort hér sé í einhverjum tilfellum um sömu aðila að ræða, því slíka spillingu og siðleysi má alls ekki líða.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní

Gunnar Tryggvason:

Gunnar Tryggvason:

„Flest þekkjum við Oddnýju sem heiðarlegan og málefnalegan stjórnmálamann sem lætur hjartað ráða för. En samstarf mitt við hana færði mig einnig í sanninn um að hún er líka gallhörð og óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir að vandlega athuguðu máli og fylgja þeim eftir. Það er eiginleiki sem skortur er á í íslenskri pólitík – Því styð ég Oddnýju sem næsta formann Samfylkingarinnar.“

Bryndís Sigurðardóttir

Bryndís Sigurðardóttir

,,Oddný er klár, hún er jafnaðarmanneskja í húð og hár og ég treysti henni til að taka góðar ákvarðanir. Hún er ekki freki kallinn, en það er hann sem við þurfum að útrýma úr stjórnmálum. Við þurfum skynsama og heiðarlega stjórnmálamenn og þar fer Oddný fremst meðal jafningja.“