Sarpur
Mánuður: ágúst 2016

Um eftirlaun

Um eftirlaun

Stutt ræða á Alþingi 30. ágúst 2016

Herra forseti

Ísland er ríkt land og hér á að vera best í heimi að lifa, eldast og eiga gott ævikvöld. Það er samt ekki hægt að segja að þannig sé staða allra sem eldri eru hér á landi. Of margir eldri borgarar lifa eingöngu á lágmarkseftirlaunum sem í dag eru 212 þús. kr. á mánuði. Er einhver hér í þessum sal sem getur lifað á rúmum 200 þús. kr. á mánuði? Nei, ég held ekki.

Eldri borgarar eru augljóslega af báðum kynjum og fátækt er jafn slæm hvort sem um er að ræða karl eða konu. En samt sem áður er erfitt að horfa fram hjá því að kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna þegar þær eru ungar, launamunurinn hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur frá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri eftirlaun. Þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á sínum efri árum. Margar konur vinna í láglaunastörfum og aðrar hafa unnið hlutastörf vegna ábyrgðar á börnum og heimili, öldruðum foreldrum eða öðrum ættingjum. Þar að auki sjáum við iðulega skýr merki þess að konur reki höfuðið í glerþakið og fái ekki sömu tækifæri og framgang á vinnustöðum og karlmenn. Það hefur líka áhrif á launin og á eftirlaunin.

Ef við getum skipt þjóðarkökunni með réttlátari hætti getum við auðveldlega bætt kjör eldri borgara. Við höfum vel efni á því að hækka lágmarksgreiðslur afturvirkt og framvegis í takt við aðrar launahækkanir í landinu. Það er reisn yfir þjóð sem veitir öldruðum og öryrkjum líka mannsæmandi laun. Samfylkingin ætlar að hækka eftirlaunin, setja á sveigjanleg starfslok og einfalda fólki að skilja og verja rétt sinn svo það geti lifað með reisn ævina út.

Veiðar og velferð

Veiðar og velferð

Við Íslendingar erum ekki sammála um hvernig eigi að skipta arðinum sem auðlindirnar okkar skapa og endalausar deilur eru um málið ár eftir ár. Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið.

Kvótakerfi var sett á af umhverfisástæðum til að vernda nytjastofnana og framsal kvóta var heimilað af efnahagsástæðum. Það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni. Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðarlögunum. Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn af hagræðingunni en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila. Og fólki finnst það óréttlátt og deilurnar halda áfram.

Ef gjöld og skattar eru of há er það almennt talið hafa slæm og bjagandi áhrif á samfélög og efnahagslíf. Það er því viðfangsefni stjórnmálamanna að finna jafnvægi milli skattheimtu og þeirrar velferðarþjónustu og útgjalda sem þeim er ætlað að standa undir. Það er hins vegar ein tegund skatta sem hagfræðingar eru almennt sammála um að hafi ekki slæm eða bjagandi áhrif og það eru auðlindaskattar og auðlindagjöld. Það eigum við að sjálfsögðu að nýta okkur.

Réttlæti og gagnsæi

Gallinn getur verið sá að ef hið opinbera handvelur þá sem fá nýtingarréttinn, þá verða sífelldar deilur um það og einnig um auðlindagjöldin ef við stjórnmálamennirnir ákveðum þau. Þessi vandamál er hægt að leysa hér á landi með útboðum á aflaheimildum. Útboði sem tryggir fullt verð með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og tekur tillit til byggðasjónarmiða. Nýtingarrétturinn ákvarðast með útboðunum og markaðurinn ákvarðar verðið og enginn deilir um það.

Kvótaútboð eru þegar stunduð á Íslandi en þau eru alfarið í höndum einkaaðila. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu verði í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir þurfa að greiða stærri útgerðum 200 krónur fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 13 krónur. Eina breytingin með útboði á aflaheimildum er því sú að þá mun þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, stunda frumútboð á heimildum og njóta arðsins.

Ef við gætum verið viss um að tekjurnar renni til uppbyggingar í sveitarfélögunum vítt og breitt um landið og til heilbrigðisþjónustu sem sárlega vantar fjármagn, mundi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram aðra. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Þessi grein birtist á Eyjunni, 26.08. 2016

Ávinningur af útboði veiðiheimilda

Ávinningur af útboði veiðiheimilda

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu vikur um stjórn fiskveiða hér á landi í kjölfar útboðs Færeyinga á aflaheimildum og sölu kvótans frá Þorlákshöfn. Umræðan er einkum um það réttlætismál að fólkið í landinu fái að njóta arðsins sem eign þess skapar og fái fullt verð fyrir veiðileyfin. Verð sem sett yrði til heilbrigðisstofnana  um allt land og til annarrar uppbyggingar. Við Íslendingar erum rík af auðlindum og teljum það eina af okkar mestu blessun.  Mörg lönd í sömu stöðu glíma við bölvun auðlindanna, spillinguna. Hér á landi birtist hún helst í því að útgerðarmenn ausa fé í stjórnmálamenn og núverandi ríkisstjórnarflokka til að reyna að tryggja  sérhagsmunina og halda úti dagblaði sem talar þeirra máli.

Sjávarbyggðir bera kostnað

Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindarnýtingunni eins og best verður á kosið. Hugmyndafræði sjálfbærar þróunar á einstaklega vel við í útfærslu reglna um nýtingu sjávarauðlindarinnar.  Auðlindanýting er sjálfbær til lengri tíma ef hún leiðir til jafnvægis þriggja þátta; umhverfisáhrifa, efnahagsáhrifa og samfélagsáhrifa. Við höfum nú þegar tekið tvö skref af þessum þremur við stjórn fiskveiða. Kvótakerfið var sett á af umhverfisástæðum, til að vernda nytjastofnana og það var áhrifaríkt skref frá sjónarhóli umhverfisáhrifa.  Það olli hinsvegar misrétti milli kynslóða nýrra og eldri útgerðarmanna og hamlaði nýliðun.  Nokkrum árum síðar var framsal kvóta heimilað af efnahagslegum ástæðum og það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni.  Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðalögunum eins og nýlegt dæmi úr Þorlákshöfn sýnir.  Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn við hagræðinguna en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila.

Réttlæti og sátt

Við höfum náð nokkuð góðum árangri með tvo af þremur þáttum sjálfbærar þróunar í sjávarútvegi, en það höfum við gert á kostnað samfélagslegrar sáttar.  Spurningin sem við stjórnmálamenn verðum að svara er þessi: Hvernig getum við náð öllum þremur hliðum sjálfbærrar þróunar við nýtingu sjávarauðlindarinnar? Samfylkingin hefur lengi talað fyrir útboði veiðiheimilda.  Sú aðgerð ein og sér færir  samfélaginu réttlátari hlut í auðlindaarðinum og gerir nýliðun í greininni mögulegri.  Í dag er staðan þannig að eigandi auðlindarinnar, þjóðin sjálf, fær aðeins um 10% af arðinum en útgerðarmönnum er leyft að ráðstafa 90% hlut. Það hallar verulega á okkur eigendur auðlindarinnar og það mun ekki nást sátt um kerfið á meðan svo er. Við getum tekið strax skref í rétta átt með því að bjóða út viðbótarkvóta sem ákveðinn hefur verið fyrir næsta fiskveiðiár. Fyrir þinginu liggur frumvarp með lagabreytingum sem gerir einmitt þetta mögulegt. Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn eru úr þremur stjórnmálaflokkum.

Hlutur sveitarfélaga

Með því að sveitarfélög fái aukna hlutdeild í ariðunum t.d. í gengum sóknaráætlun landshluta, getum við styrkt stöðu þeirra til uppbyggingar með hugviti heimamanna. Útboð veiðiheimilda tryggir fullt verð fyrir sjávarauðlindina. Með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og staka tillit til byggðasjónarmiða ásamt ríflegri hlutdeild sveitarfélaga í því verði sem útgerðarmenn eru tilbúnir til að bjóða, myndi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu losað sig undan  taprekstri dagblaðsins. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2016

Hvers vegna var kjörtímabilið stytt?

Hvers vegna var kjörtímabilið stytt?

Við leggjum nú af stað inn í síðustu daga þessa kjörtímabils töluvert fyrr en áætlað var. Ástæðan er sú fordæmalausa staða sem upp kom í kjölfar þess að Panamaskjölunum var lekið og í ljós kom að fjöldi Íslendinga, og þar á meðal æðstu embættismenn, höfðu nýtt sér skattaskjól sem notuð eru til að koma peningum undan sameiginlegum sjóðum landsmanna. Það var þjóðinni áfall að forsætisráðherra landsins skyldi vera flæktur í málið, og viðtalið fræga og fréttirnar í kjölfarið voru óbærilega vandræðalegar og þjóðin skammaðist sín fyrir umræður á erlendum fréttastöðum um spillta ráðherra á Íslandi. Fjármálaráðherra og innanríkisráðherra þurftu síðan að útskýra hvers vegna þeirra nöfn voru líka í skjölunum.

Það var tilfinning fólks um svik og spillingu sem kallaði fram fjölmennustu mótmæli í sögu Íslands. Krafan var kosningar strax!

Málamiðlun

Forsætisráðherrann sagði af sér og núverandi forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra báðu þjóðina að sætta sig við að kláruð yrðu ákveðin mál fyrir kosningar en kjörtímabilið yrði stytt um eitt þing. Þegar spurt var um kjördag var svarið: Það fer eftir því hvernig stjórnarandstaðan hagar sér.

Þetta svar er og hefur ekki verið boðlegt og ríkisstjórninni til minnkunar. En þrátt fyrir þessa hótun og þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki fengist til að segja kjósendum hvenær yrði kosið fyrr en nú fimm mánuðum síðar, vann stjórnarandstaðan þétt við þeirra hlið hér á Alþingi síðastliðið vor við að klára mikilvæg mál. Það samstarf gekk vel og er vert að rifja það upp nú þegar við höldum inn í þetta stutta sumarþing.

Ríkisstjórnin rúin trausti

Sannleikurinn er sá að það ríkir megn óánægja með sitjandi ríkisstjórn á fleiri en einu sviði. Heilbrigðisþjónustan líður fyrir fjárskort og það gerir menntakerfið líka. Kjör aldraðra og öryrkja hafa dregist aftur úr lágmarkslaunum. Grunur hefur vaknað um vond vinnubrögð, svo sem í Borgunarmálinu og sala ríkiseigna tortryggð. Farið var í leiðréttingu á húsnæðislánum sem gagnaðist ríkum allra best. Þunginn í ferðamannastraumnum eykst sífellt án þess að gripið sé til neinna aðgerða. Og ríkissjóður hefur orðið að tugum milljarða króna undanfarin þrjú ár vegna lækkaðra veiðigjalda og skatta á þá sem mest eiga. Allt þetta bitnar á venjulegu fólki sem er á lágum eða meðallaunum. Og það er engin þolinmæði lengur fyrir slíkum vinnubrögðum.

Von um betri ríkisstjórn

Það er þó ekki allt kolsvart og staða ríkisfjármála er að mörgu leyti góð, og með réttum áherslum og góðri forgangsröðun verður hægt að byggja upp opinberu þjónustuna og styrkja innviði landsins. Nú er líka góð von um að ný ríkisstjórn taki við stjórnartaumunum eftir kosningar.

Það kemur satt að segja á óvart að sjá kosningaloforð stjórnarflokkanna sem birtast í áætlun þeirra í ríkisfjármálum til næstu fimm ára. Fyrirfram hefði maður búist við digrum loforðapakka með hinum ýmsu uppbyggingarverkefnum, en flokkarnir hafa ákveðið að sýna sitt rétta andlit og gera ekki ráð fyrir meiri peningum inn í heilbrigðiskerfið eða til háskólanna, ekkert meira í vaxta- og barnabætur og nánast ekkert í uppbyggingu vegakerfisins. Og þegar spurt er hvernig skuli þá byggja upp Ísland er svar þeirra einfalt: einkarekstur. Einkarekin sjúkrahús, heilsugæsla, skólar, vegir og flugvöllur.

Ríkisstjórnin mun ekki klára kjörtímabil sitt vegna þess hún er rúin trausti.

Áherslur jafnaðarmanna

Kosið verður að nýju 29. október. Við í Samfylkingunni tölum fyrir hugsjónum jafnaðarstefnunnar og nýrri stjórnarskrá. Fyrir öflugu velferðarsamfélagi, réttlátari skiptingu þjóðarkökunnar, jafnrétti til náms, gæða heilbrigðisþjónustu sem allir geta notið og mannsæmandi kjörum á öllum stigum lífsins.

Það er góður möguleiki á að betri ríkisstjórn taki við eftir nokkrar vikur. Og það er afar gleðilegt.

Ræða flutt á Alþingi 17. ágúst 2016