Sarpur
Mánuður: júlí 2016

Ríkisstjórn á fyrirvara

Ríkisstjórn á fyrirvara

Það kom mér á óvart að lesa það í stuttri grein í Fréttablaðinu eftir félags- og húsnæðismálaráðherra að hún hefði samþykkt fimm ára fjármálaáætlun ríkisins með fyrirvara þegar að áætlunin var til afgreiðslu á ríkisstjórnarfundi. Þetta er sannarlega stórfrétt. Fyrirvarinn kom ekki fram þegar að mælt var fyrir áætluninni á Alþingi og ekki heldur við umræður í fjárlaganefnd um málið. Þvert á móti lagði meirihluti fjárlaganefndar til með framsóknarþingmann í forystu, að fjármálaáætlunin yrði samþykkt óbreytt.

Ráðherra tekur undir gagnrýni mína, ASÍ og fleiri á lækkun vaxtabóta og barnabóta. Hvoru tveggja mun koma illa við ungar barnafjölskyldur verði stefnan látin standa óbreytt og auka ójöfnuð hér á landi.

Alvarlegir fyrirvarar
Félags- og húsnæðismálaráðherra segir að hún hafi gert alvarlega fyrirvara við afgreiðslu fimm ára áætlunar ríkisstjórnarinnar. Fjármálaáætlunin er hins vegar grunnur fjárlagafrumvarps sem er helsta stefnuplagg stjórnvalda. Fyrirvarinn er því sannarlega alvarlegur, ekki síst fyrir samstarf stjórnarflokkanna.

Reyndar gerði fjármála- og efnahagsráðherra eins konar fyrirvara við fjármálaáætlunina í viðtölum í fjölmiðlum síðustu daga. Þar sagðist hann meðal annars vilja að Landspítalinn fengi umtalsverði hærri fjárveitingar til rekstrar en nú er og þar með mælti hann gegn eigin fjármálaáætlun.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa þessu til viðbótar gagnrýnt búvörusamningana ákaft síðustu daga og samkvæmt því virðist ekki vera meirihluti á þingi fyrir samningum sem bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa nú þegar skrifað undir.

Ríkisstjórn ríka fólksins er því stýrt með alls konar fyrirvörum síðustu lífdagana. Það er ekki trúverðugt eða merki um stefnufestu og vönduð vinnubrögð.

Þessi grein birtist í Eyjunni 19.07. 2016

Heilbrigðismál í forgang

Heilbrigðismál í forgang

Allt er mögulegt í hópíþróttum með góðri liðsheild, undirbúningi og skipulagi eins og nýleg dæmi sanna. Það á líka við í stjórnmálum.

Við viljum bæta heilbrigðisþjónustuna og það er hægt ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Verkefnið er flókið en skýr forgangsröðun, samtakamáttur og skipulag mun skila okkur betri stöðu á fáum árum. Fyrst og síðast þurfa stjórnvöld að afla tekna til að setja í heilbrigðisþjónustuna.

Á undanförnum vikum höfum við í Samfylkingunni heimsótt heilbrigðisstofnanir og stéttarfélög og öllum ber saman um að lítið sé að marka fögur fyrirheit stjórnvalda um aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustuna. Kári Stefánsson lagði til að 11 prósentum landsframleiðslunnar yrði varið í heilbrigðisþjónustuna. Það er ekki fjarri lagi.

Slík hækkun núna myndi þýða að Landspítalinn hefði um 18 milljarða aukalega til að spila úr og gæti byggt upp mikilvæga þjónustu, mannað allar stöður og nútímavætt tæknibúnað sinn. Meirihluti landsmanna vill frekar verja almannafé í opinbera þjónustu heldur en einkarekstur og það viljum við líka.

Mikið hefur verið rætt um stöðu lækna á Íslandi, enda áhyggjuefni að ungir læknar snúi ekki aftur heim að loknu námi. Staða hjúkrunarfræðinga er ekki síður áhyggjuefni. Á næstu þremur árum komast um það bil 700-900 hjúkrunarfræðingar á eftirlaunaaldur.

Í staðinn útskrifast aðeins um 450 hjúkrunarfræðingar úr námi og margir þeirra munu velja sér önnur störf. Fækkun hjúkrunarfræðinga hefði víðtækari áhrif á næstu árum heldur en fækkun lækna, og það verður að finna leiðir til þess að fjölga í stéttinni.

Fleiri stéttir, sem konur fylla að mestu, þurfa jafnframt athygli stjórnvalda svo sem geislafræðingar, sjúkraþjálfarar og líftæknifræðingar. Það þarf að grípa til aðgerða nú þegar og efla háskólana á þessum sviðum.

Halda mætti að almenn sátt ríkti um þessi markmið en svo virðist ekki vera.

Í ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára er ekki að finna þá aukningu á fjárframlögum sem nauðsynleg er til að viðhalda núverandi ástandi, hvað þá til að bæta þjónustuna. Ef við ætlum að fá betri heilbrigðisþjónustu á næstu árum, verður ný ríkisstjórn að taka við sem skilur að heilbrigði er undirstaða velmegunar og hamingju.
Oddný G. Harðardóttir
Heiða Björg Hilmisdóttir

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu, þann 13. júlí 2016

Skattsvik og þrælahald

Skattsvik og þrælahald

Fyrirsögnin er ógeðfelld en þetta eru samt orðin sem lýsa best því sem verkalýðsfélög víða um land horfa upp á. Í verktakabransanum eru til fyrirtæki sem vilja hlunnfara erlenda starfsmenn með því að greiða þeim laun sem ná ekki lágmarkslaunum hér á landi.  Í ferðaþjónustunni ríkir eins konar gullgrafaraæði þar sem það sama fyrirfinnst. Reynt er að hafa laun af fólki og svört atvinnustarfsemi viðgengst. Þó flestir fari sem betur fer eftir lögum ber þetta okkur ekki fagurt vitni. Það ætti enginn að hylma yfir með þeim svíkja undan skatti eða hafa umsamin laun af fólki. Það eru ekki aðeins erlendir starfsmenn sem verða fyrir barðinu á þeim sem vilja skyndigróða og brjóta lögin. Mörg dæmi er um að illa sé komið fram við ungt fólk sem starfar í veitingahúsum eða hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Dæmi eru til að mynda um að starfsmenn fái engin útgreidd laun og séu titlaðir lærlingar þó enginn sé kennarinn eða skólinn.

Til að uppræta þessa skömm og lögleysu þarf eftirfarandi að gerast:

  • Félög atvinnurekenda og verkalýðsfélög taki höndum saman við eftirlit með launagreiðslum.
  • Aðalverktakar beri ábyrgð á því að undirverktakar fari  að íslenskum lögum og launasamningum.
  • Efla þarf eftirlit Ríkisskattsstjóra.
  • Beita á sektum og leyfissviptingum ef fyrirtæki fara ekki eftir samningum um lágmarkslaun og aðbúnað starfsfólks.

Jafnaðarmenn geta ekki setið þöglir hjá og látið verkalýðsfélög ein um að benda á skattsvik og bera ábyrgð á að uppræta það sem kalla má með réttu  þrælahald hér á landi. Við í Samfylkingunni munum ekki þegja yfir slíku eða samþykkja með fjársvelti eftirlitsstofnana eins og nú er gert. Við munum einnig beita okkur fyrir lagasetningu sem skýrir ábyrgðarsvið þeirra sem um ræðir.